145. löggjafarþing — 31. fundur,  11. nóv. 2015.

samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

157. mál
[15:49]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég kem upp fyrir hönd Bjartrar framtíðar til að fagna þessu frumvarpi og atkvæðagreiðslu um það. Þetta er mikilvægt skref í því að innleiða samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, lítið hænuskref, en eins og við tókum eftir í morgun kom Öryrkjabandalagið með undirskriftasöfnun til að hvetja okkur þingmenn til að fullgilda samninginn og lögfesta hann. Það væri náttúrlega það besta sem við gætum gert.

Ég vil líka nota tækifærið til að minna á annað frumvarp til laga sem liggur inni hjá þinginu en hefur ekki verið mælt fyrir, um breytingu á ákvæðum ýmissa laga um bann við mismunun (réttindi fatlaðs fólks). Þetta lögðum við fram til að hjálpa löggjafarþinginu og framkvæmdarvaldinu við að reyna að fullgilda þetta sem fyrst og ég hvet stjórn þingsins og þingheim til að taka það frumvarp til umræðu sem fyrst.