145. löggjafarþing — 31. fundur,  11. nóv. 2015.

náttúruvernd.

140. mál
[16:07]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir að auðvitað hafa hugmyndir okkar um þennan rétt breyst þegar við horfum upp á íbúafjölda landsins margfaldast með tilkomu miklu fleiri erlendra ferðamanna en áður. Það er hins vegar ljóst að spurningarnar eru uppi á borðum. Það er líka ljóst og mig langar að nefna það að þetta er einnig til umræðu í stjórnarskrárnefndinni. Vonandi fáum við að ræða tillögur hennar einhvern tíma á þessu þingi og þar kemur almannarétturinn við sögu. Ég held að mikilvægt sé og kannski ágætt í raun og veru að ef við náum að festa slíkt ákvæði í stjórnarskrá er ekki slæmt að eiga eftir að vinna úr því með mjög skýrum hætti í löggjöfinni. Ég get því svo sem tekið undir það með hv. þingmanni að það getur verið gott fyrir okkur hér á þingi að fá þennan umþóttunartíma til að fjalla um málið frá öllum hliðum.

Ég vil fyrst og fremst nota tækifærið og hvetja nefndina til að taka virkan þátt í samræðunni því að þarna eru ýmis sjónarmið sem lúta að hagsmunum almennings hér í landi og þeim rétti sem margir hafa talið gríðarlega mikilvægan og hefur verið lengi í innlendum rétti, en auðvitað líka hvernig við getum tryggt eðlilegt samspil ferðaþjónustu, náttúruverndar og svo landeigenda. Ég held að þar séu mörg sjónarmið og ég hvet nefndina til að taka virkan þátt í þeirri umræðu.