145. löggjafarþing — 31. fundur,  11. nóv. 2015.

náttúruvernd.

140. mál
[16:12]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanni sömuleiðis fyrir gott samstarf. Ég held að margir geti staðið uppi sem sigurvegarar eftir allt þetta langa ferli og ég ætla engan að undanskilja í því, hér hafa allir lagt sitt af mörkum, þar með talið fyrrverandi umhverfisráðherrar.

Varðandi utanvegaaksturinn er um að ræða gríðarlega umdeilt mál. Sátt náðist þegar lögin voru samþykkt vorið 2013 af þáverandi ríkisstjórn. Ég hef ekki viljað feta mig mikið út af þeirri sáttaleið, við stigum einhver lítil skref, mjög lítil, vegna þess að fjölmargir aðilar höfðu ýmsar athugasemdir þar. Ráðuneytið fór sömuleiðis í mikla vinnu við að skoða hvort það væri tilefni til þess að breyta ákvæðinu, þ.e. vera með meginregluna og svo mjög skýr undantekningarákvæði. Niðurstaða ráðuneytisins var sú sama og ég hef lýst, að fara ekki út í miklar breytingar. Ég er einfaldlega þeirrar skoðunar að ákvæðið eins og það er núna uppsett sé mjög skýrt og vel afmarkað. Ég hef verið þeirrar skoðunar að það sé best að hafa undantekningar í lögunum skýrar. Ég hef til dæmis ekki verið sammála þeirri nálgun, eins og þetta er núna, að reglugerðarheimild ráðherra skýri málið (Forseti hringir.) og í ljósi þess mun ég ekki samþykkja breytingartillöguna.