145. löggjafarþing — 31. fundur,  11. nóv. 2015.

náttúruvernd.

140. mál
[16:14]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þarna greinir okkur á, mig og hv. þm. Höskuld Þórhallsson, í þessum efnum vegna þess að mér finnst frumvarpið og lagagreinin eins og hún er núna ekki skýrt. Undir það tóku fjölmargir umsagnaraðilar, kannski sérstaklega þegar kemur að heimild við störf vegna landbúnaðar. Samkvæmt upprunalega frumvarpinu átti að vera heimilt að aka utan vega vegna starfa við landbúnað utan miðhálendisins en orðin „utan miðhálendisins“ hafa fallið út. Það má gagnálykta í næstu setningu í málsgreininni að bændum sé óheimilt að aka utan vega innan miðhálendisins en engu að síður hefði hitt verið skýrara.

Þær heimildir sem nauðsynlegar eru til handa björgunarsveitum, lögreglu, slökkviliði og sjúkraflutningum eru til staðar í þeirri breytingartillögu sem við í minni hlutanum höfum flutt sem og heimildir bænda til eftirleita, eins og frumvarpið 2013 gerði ráð fyrir. Aðrir aðilar sem hafa undanþágur samkvæmt lögunum þurfa að sækja sérstakt leyfi til Umhverfisstofnunar. Það teljum við eðlilegt, við viljum fækka þessum undanþágum og ég held að það sé mjög í anda þess sem fólki almennt finnist þurfa að gera hvað varðar þennan þátt laganna.

Ég hvet þess vegna hv. þingmann sem og meiri hluta nefndarinnar til að skoða mjög vandlega hvort við getum ekki náð saman um þetta eina atriði hér á síðustu metrunum sem út af ber í okkar annars ágæta samstarfi.