145. löggjafarþing — 31. fundur,  11. nóv. 2015.

náttúruvernd.

140. mál
[16:38]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ég hef flutt allmargar ræður um þetta mál í þinginu á síðustu árum, hef verið svona eins og einhvers konar samferðamaður lagafrumvarpsins í umhverfis- og samgöngunefnd. Ég ætla því ekki að hafa mörg orð um málið sem verið er að ganga frá til afgreiðslu í 2. umr. og vonandi verður það að lögum á morgun. Ég hef flutt margar ræður um nauðsyn þess að við settum þau lög og hef stutt það í gegnum síðustu fjögur ár hér í þinginu. Mér finnst það auðvitað mjög jákvæður áfangi sem við erum að ná. Ég held að þetta kveði kannski ekki í kútinn allar deilur okkar um náttúruna eða umhverfismál í þinginu, en þetta er mikilvægur áfangi sem við náum.

Í heiti laganna, sem eru lög um náttúruvernd, felst auðvitað staðfesting á þeim vilja allra sem hér eru að við viljum vernda náttúruna. Það er sameiginlegur skilningur okkar sem sitjum á þingi að nauðsynlegt sé að gera það. Ágreiningurinn snýst kannski fyrst og fremst um hversu langt menn vilja ganga í þeim efnum.

Eftir að hafa farið yfir þessa hluti í umhverfisnefnd kemur í ljós það sem ég taldi mig vita, að ekki er eins langt á milli og menn ímynduðu sér, að minnsta kosti vorið 2013. Síðan þá hefur líka ansi margt gerst. Það hefur ræst sem margir sögðu þá að tíminn vinnur með náttúrunni. Nú búum við í þeim veruleika að á bilinu 300–400 milljarða tekjur eru af ferðaþjónustu árlega og við vitum að um 80%, ef ekki meira, þeirra ferðamanna sem sækja landið heim gera það til að berja íslenska óspillta náttúru augum. Hún hefur því eins og hún er mikið efnahagslegt gildi fyrir samfélagið. En hún hefur líka gildi í sjálfri sér eins og hún er, alla vega hvað mig varðar. Hún er mikilvæg bara fyrir sitt leyti. Hún er líka mikilvæg fyrir almenning á Íslandi að geta notið þeirrar náttúru sem land okkar býður upp á, felur í sér gríðarleg forréttindi. Ég held að við Íslendingar gerum okkur oft ekki grein fyrir því hversu ótrúlega lánsöm við erum, meira að segja á mölinni á suðvesturhorninu, að geta með jafn ótrúlega auðveldum hætti komist út í óspillta náttúru og notið hennar og notið okkar þar. Það er ótrúlega dýrmætt.

Ég vil nefna sérstaklega tvö atriði sem mér finnast mikilvæg, en ég hef áður fjallað um þau í ræðum í þinginu, þ.e. að við erum núna að afgreiða meginreglu umhverfisréttarins sem felst í varúðarreglunni. Það tókst í vinnu nefndarinnar að gera nauðsynlegar breytingar á því hvernig sú regla átti að hljóma upphaflega. Mikilvægt er að við erum að flétta hana inn í lögin með þeim hætti að hún tekur til þeirra framkvæmda sem menn vilja ráðast í í náttúru Íslands og menn verða að afla upplýsinga, gagna og þekkingar áður en teknar eru ákvarðanir. Vafinn er náttúrunnar megin í þeim efnum.

Við náum ekki alveg saman þegar kemur að utanvegaakstri og breytingartillaga er frá minni hlutanum. Það sem þó er mikilvægt og ég vil sérstaklega segja er að við fléttum varúðarregluna inn í greinina um utanvegaaksturinn. Það er mjög jákvætt skref. Ég fagna því. Það er líka í nefndarálitinu sérstaklega til tekið hvað teljist vera náttúruspjöll, vegna þess að í deilum um ákvæði um utanvegaakstur í lögunum frá 1999 hefur það eiginlega verið tvennt sem gert hefur lagagreinina um utanvegaakstur ómarkvissa. Annars vegar sú staðreynd að menn hafa ekki verið með nákvæma skilgreiningu á því hvað telst vera vegur. Í lögunum núna er gert ráð fyrir að fram fari vinna, þ.e. sólarlagsákvæði um hvenær henni skal vera lokið þar sem þessi skilgreiningarvinna fer fram. Þá mun það liggja fyrir hvað telst vera vegur og hvað telst vera utan vega. Það er auðvitað gríðarlega mikilvægt þegar menn ætla að banna utanvegaakstur að menn séu með þá skilgreiningu algerlega á hreinu.

Síðan hefur hitt verið mjög óljóst hvað teljast vera náttúruspjöll. Í reglugerð um utanvegaakstur sem er frá árinu 2005 er þetta nákvæmlega skilgreint, auk þeirra heimilda sem menn hafa talið nauðsynlegar til þess að geta sinnt ýmsum störfum utan vega. Það er mjög mikilvægt, þó að ekki sé lengra gengið en það, að tilgreina sérstaklega í nefndaráliti hvað telst vera utanvegaakstur, hvað teljast vera náttúruspjöll svo enginn þurfi að velkjast í vafa um það.

Einnig er verið að gera lagfæringu á lagagrein, sem byggir á frumvarpi sem ég flutti á síðasta kjörtímabili, sem felur í sér upptöku ökutækja hafi menn gerst sekir um alvarleg náttúruspjöll, alvarleg brot. Hér er það lagfært þannig að það eigi ekki við um þá sem sannarlega séu á ökutækjum sem eru í eigu annarra en ökumannsins. Það er mikilvæg lagfæring, en það er líka jákvætt að nefndin heldur þeim kafla inni. Hann hefur að mínu mati mikinn fælingarmátt á sama hátt og frumvarp sem felur í sér þungar sektir við því að henda rusli út í náttúru Íslands sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hefur lagt fram á þinginu. Það er jákvætt, ég veit ekki hvort það mál er komið fram sem formleg breytingartillaga í þessum efnum, en það er í anda þess sem við höfum verið að gera þegar kemur að utanvegaakstrinum.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um málið, virðulegur forseti. Ég er mjög ánægður með að við skulum vera komin hingað í þessari vinnu og þakka nefndinni ítrekað og aftur fyrir samstarfið og vonast til að þetta muni fara ljúflega í gegnum þingið, ég á ekki von á öðru.