145. löggjafarþing — 31. fundur,  11. nóv. 2015.

náttúruvernd.

140. mál
[16:49]
Horfa

Hörður Ríkharðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að ég er að koma inn í þetta mál á óheppilegum tíma en ég fjalla kannski frekar um það í ræðu á eftir. Ég dreg þær ályktanir af svari þingmanns að hann telji býsna langsótt að utanvegaakstur geti yfir höfuð átt sér stað miðað við þau skilyrði sem er búið að setja honum og hvort heldur sem við horfum á tillögu minni hluta eða meiri hluta. Skilgreiningin á náttúruspjöllum er bara þannig að vélknúnu ökutæki verður ekki ekið utan vega án þess að eitthvað af því gerist sem þar er lýst, eins og ég skil það. Ég hef 28 ára reynslu af störfum á miðhálendi Íslands við að smala kindum, veiða rjúpur og ganga mér til ánægju og yndisauka og ég get ekki séð hvernig þetta eigi allt saman að koma heim og saman. En gott að sinni.