145. löggjafarþing — 31. fundur,  11. nóv. 2015.

náttúruvernd.

140. mál
[16:50]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það eru nokkur atriði sem mig langar að koma inn á í ræðu minni. Það er í fyrsta lagi að ég hlýt auðvitað að fagna því að við sjáum nú fyrir endann á þeim deilum sem verið hafa um þessa löggjöf, sem lögfest var á árinu 2013 og hefur valdið því að við höfum frestað gildistöku hennar sýknt og heilagt það sem af er þessu kjörtímabili. Það er jákvætt að við séum að minnsta kosti komin með niðurstöðu í málið sem getur haft það í för með sér að lögin frá vori 2013 geti tekið gildi með þeim breytingum sem hér hefur verið gert ráð fyrir og gerð góð grein fyrir af þeim sem á undan mér hafa talað. Það skiptir máli. Ástæðan fyrir því að það skiptir máli er sú að lögin frá árinu 1999, sem eru í gildi núna, eru ekki fullnægjandi. Ég held að flestir þeir sem komu fyrir nefndina, sama úr hvaða átt það var, geti verið sammála um það.

Ég held að við getum verið bærilega sátt við þá niðurstöðu sem hér er. Eins og fram hefur komið er um málamiðlun að ræða í ákveðnum atriðum. Sumt gengur ögn skemur en við hefðum viljað sjá gerast og gengur skemur en lagt var til í upphaflegu lögunum, þ.e. frá vorinu 2013, en annað er aðeins betra og það er vel.

Eins og gefur að skilja með málamiðlun hefði maður haft þetta einhvern veginn öðruvísi ef maður hefði sjálfur skrifað það. Það breytir því ekki að við þokuðum málinu vel áleiðis og getum öll bærilega vel við unað. Það sem skiptir meginmáli í þessu er að við erum komin með grunninn undir ákvarðanatöku um náttúruvernd. Hér er tekið býsna fast á mjög mikilvægum atriðum og má nefna til dæmis varúðarregluna og fleiri atriði sem ég tel skipta máli og líka utanvegaaksturinn og fleira slíkt sem ég kem inn á í máli mínu.

Maður veltir því oft fyrir sér hvernig við vinnum í þessu þingi þegar okkur tekst núna að ná saman um þetta mál á þennan hátt, vegna þess að á vordögum 2013 lagði þáverandi formaður umhverfisnefndar, Mörður Árnason, sem þá var hér þingmaður, sig allan fram við að reyna að ná sátt, af því að það skipti máli að við næðum niðurstöðu í þessum málum. Menn lögðu mikið á sig til að ná málamiðlun. Andstaðan við löggjöfina og gildistöku hennar þá byggði á því að menn voru sjálfkrafa á móti öllu sem sú ríkisstjórn gerði og voru til í að ganga ansi langt og segja ansi margt án þess að hafa kynnt sér málið ofan í kjölinn. Svo loksins þegar menn gera það núna kemur auðvitað í ljós að þarna er um mjög góðan grunn að ræða og löggjöf sem við teljum að geti staðið um lengri tíma, þó með þeim breytingum sem hér er verið að gera, sem bæði eru til komnar til að ná málamiðlun millum ólíkra sjónarmiða pólitískt en líka vegna þess hreinlega að umhverfi okkar hefur breyst mjög mikið. Þá er ég að meina stöðuna til dæmis vegna hinnar gríðarlegu fjölgunar ferðamanna hingað til lands. Það hefur mikil áhrif, ekki aðeins á náttúruna heldur líka á það hvernig við nálgumst þessi mál. Það breytir þeirri sýn sem við höfum haft í gegnum tíðina.

Aðeins um lögin um náttúruvernd. Það má segja að breyting eða endurskoðun á þeim hafi átt sér stað á 15–20 ára fresti. Það voru fyrst samþykkt náttúruverndarlög veturinn 1955–1956. Þá var það Bjarni Benediktsson sem lagði þau fram. Þau stóðu í 15 ár eða til ársins 1970 þegar Gylfi Þ. Gíslason lagði fram frumvarp til nýrra náttúruverndarlaga. Þau stóðu svo í 28 ár og vonandi erum við að setja löggjöf sem getur staðið svo lengi. Þá voru sett ný lög, sem eru lög frá 1999, og þau stóðu til 2013 en svo hefur gildistöku þeirra laga verið frestað ítrekað þannig að við sjáum hér lög sem eru að fara að leysa þau af hólmi. Það sýnir okkur að það er gríðarlega mikil vinna þarna að baki og það hefur komið fram í umræðunni að sagan á bak við þessa löggjöf er líka löng, það er allavega sex ára ferli að baki sem byrjar með því að hafin er vinna við gerð hvítbókar um náttúruvernd á árinu 2009. Við erum núna að sjá niðurstöðu í þessu.

Í þessu máli sést hvað hægt er að gera ef menn leggja sig fram um að ná saman í málum. Ég vona að okkur lánist að gera það í fleiri málum vegna þess að það er hægt ef viljinn er fyrir hendi.

Aðeins um nokkur efnisatriði málsins. Það er búið að fara ágætlega yfir þetta en mig langar að fara yfir nokkur atriði. Það er í fyrsta lagi varúðarreglan. Það varð alveg gríðarlega áhugaverð umræða í nefndinni, meðal gesta og líka meðal nefndarmanna, um nálgun þegar kemur að varúðarreglunni. Það má lýsa því best þannig að þarna væru á ferðinni tveir skólar, annars vegar sá sem teldi að það ætti að vera ein almenn verndarregla, þ.e. ein almenn varúðarregla, í lögum um náttúruvernd sem ætti síðan að leggjast eins og breiða yfir aðra löggjöf. Hins vegar voru aðrir sem héldu því fram að slíkt biti ekki nægjanlega og það þyrfti þar af leiðandi að þræða hana inn í alla löggjöf, meira og minna, þar sem verið er að vinna með náttúruna eða hugsanlegar breytingar á henni. Eftir mikla umræðu í nefndinni var gerð sú málamiðlun að fara þá leið að þræða þessa reglu og þrengja gildissvið hennar þannig að hún lægi ekki eins og teppi yfir alla löggjöf heldur væri byrjað að þræða hana almennt inn í aðra löggjöf. Eins og hefur verið nefnt er komin varúðarregla inn í til dæmis í greinina um utanvegaaksturinn innan náttúruverndarlöggjafarinnar. Síðan byrjum við með nýju ákvæði inn í mannvirkjalög og skipulagslög þar sem varúðarreglan er þrædd inn. Mér finnst skipta mjög miklu máli að það komi fram að ég held að við höfum öll verið sammála um það í nefndinni að við vildum hafa reglu sem biti, þ.e. að menn fylgi þeim vilja okkar að varúðarreglan sé virt þegar ákvarðanir um framkvæmdir eða rask á náttúrunni eru teknar. Ég lít svo á að við séum rétt að byrja þræðingu á varúðarreglunni inn í íslenska löggjöf. Það er mikilvægt að halda þeirri vinnu áfram þó að við tökum fyrstu skrefin hér. Það er von mín og okkar að þetta ákvæði verði almennt og tekið verði tillit til þess við rask á náttúrunni. Þannig verði það náttúran sem njóti vafans en ekki framkvæmdin þegar á hólminn er komið.

Þá verð ég líka að nefna að við ræddum töluvert um sérstöku verndina og C-minjarnar svokallaðar. Í umræðum nefndarinnar var mikið talað um að menn teldu ekki nægjanlegt hald í lögunum eins og þau eru núna. Það var vilji til að reyna að styrkja þann grunn og farið var ágætlega yfir það í ræðu formanns nefndarinnar og ræðu hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur. Svo verður reynslan að sýna okkur hvernig þetta reynist, sú nálgun sem við erum að fara núna. Það skiptir máli varðandi löggjöfina að við fylgjumst mjög vel með því hvernig unnið er með hana á hverjum tíma. Það er auðvitað þannig að þótt það liggi mikil vinna að baki löggjöfinni, og hafi gert í öll þau skipti sem ný náttúruverndarlög hafa verið sett hér á landi, má ekki gleyma því að við höfum líka þess á milli verið að gera á henni minni breytingar. Það er aldrei þannig að við setjum löggjöf um náttúruvernd og þá sé allt meitlað í stein og engu megi breyta heldur gera menn auðvitað breytingar á henni. Nú er það okkar sem setjum þessa löggjöf sameiginlega að fylgjast vel með því hvernig framkvæmdaþátturinn og úrvinnslan á þeirri vinnu verður og vera óhrædd við að gera þær breytingar sem við teljum að þurfi að gera til að ná því að láta þau bíta almennilega, eins og rætt var svo mikið um. Þetta á við almennt, ekki aðeins um ákvæði um sérstaka vernd og C-minjarnar.

Ég vil líka koma inn á önnur atriði. Töluvert var rætt um skilgreininguna á framandi tegundum og hvort ætti að miða við miðja 18. öld eins og lögin frá 2013 gera ráð fyrir og frumvarpið lagði til að yrði tekið út úr löggjöfinni. Það var talsverð umræða um það og var það áhugaverð umræða vegna þess að þar voru þau sjónarmið að einhvers staðar þyrfti að draga línu í sandinn hvað varðar hvenær lífvera geti verið framandi og hvenær ekki, svo að það yrði ekki matskennt. Það sem var sannfærandi við að nota miðja 18. öld var ekki síst að skömmu eftir 1750 hefst iðnbyltingin og þá verður mikill tilflutningur lífvera milli landa og þær breytingar sem við þekkjum eiga sér stað. Þess vegna er það ágætisviðmið. Niðurstaðan varð sú að hafa það ekki inni en koma hins vegar með góðar skýringar á því í nefndaráliti. Ég get svo sem alveg fellt mig við það. En hins vegar höfum við núna fengið, og við verðum að hlusta þegar til okkar er talað af fagaðilum, athugasemdir varðandi ákveðin atriði í nefndarálitinu þegar kemur að skilgreiningunni á framandi lífverum. Ég held að við ættum millum umræðna að taka til skoðunar þær ábendingar sem við höfum fengið um skilgreininguna á framandi lífverum og hvar ákvörðun um þá skilgreiningu er tekin, þ.e. hvað sé framandi lífvera. Við megum ekki skilja neitt svona eftir í lausu lofti. Ég held ekki að það ætti að tefja okkur neitt að kíkja aðeins á það milli umræðna.

Það var komið ágætlega inn á utanvegaaksturinn. Þeir sem komu fyrir nefndina og eru að vinna með löggjöfina um náttúruvernd gerðu athugasemd við að menn þyrftu að skilgreina náttúruspjöll og hvað það væri. Það er gert ágætlega hér og menn komast að ágætri niðurstöðu um það. Ég vil líka nefna að það er mjög jákvætt að varúðarreglan sé tekin þarna inn vegna þess að það er þannig með utanvegaaksturinn og alla umræðu um almannahagsmunina að svo margt hefur breyst á þeim skamma tíma frá því að lögin voru samþykkt. Við sjáum gríðarlegan fjölda ferðamanna og aðilar hafa komið að máli við nefndina við vinnslu þessa máls og ekki með fagrar lýsingar á umgengni ferðamanna og því sem blasir við þeim. Það geta verið innlendir og erlendir ferðamenn, ég ætla ekki að hafa neina skoðun á því. Það er orðið dálítið þannig að menn líta svo á að það sé í lagi að ganga rösklega um landið og skilja eftir sig ýmsan sóðaskap sem menn vildu ekki mæta í næsta nágrenni sínu. Á því verðum við að taka. Þegar við vorum að tala um almannarétt fyrir þremur árum eða fjórum árum var maður ekki með þennan gríðarlega fjölda ferðamanna í huga. Það var allt annar veruleiki sem blasti við okkur þá. Ég held að það skipti miklu máli að við reynum núna þegar bráðabirgðaákvæði er komið inn í lögin, eftir samþykkt þess hér, að láta næsta stóra skrefið vera að finna málamiðlun þarna á milli, þ.e. annars vegar að við getum gengið frjáls um landið okkar og hins vegar að reyna að koma böndum á að verið sé í raun að beita ferðamönnum á ákveðin svæði á landinu með þeim afleiðingum sem það hefur í för með sér. Ferðamennirnir koma hingað út af þessari fallegu óspilltu náttúru og þá megum við heldur ekki koma því þannig fyrir í skipulagningu okkar á ferðaþjónustu að hún dragi úr gæðum aðdráttaraflsins og því sem dregur ferðamenn hingað, fyrir það fyrsta. Þess vegna skiptir þetta máli. Ég segi fyrir mína parta að ég hafði allt aðrar hugmyndir um almannaréttinn fyrir nokkrum árum en í dag. Ég tel að það eigi við um okkur flest. Við þurfum að ná einhvers konar málamiðlun milli þessara tveggja ólíku hópa og sjónarmiða, að við séum með stórútgerð í ferðaþjónustu en höldum því að menn geti gengið frjálsir um landið.

Þetta er verkefnið fram undan og allt gott og blessað með það þótt það verði ekki auðvelt. Ég held að ég geti ekki ítrekað nægilega hversu mikilvægt er að hafa skýra löggjöf. Ég held að við séum komin með hana að miklu leyti til, fyrir utan þá fyrirvara sem ég hef lýst. Við þurfum að halda áfram að þræða varúðarregluna inn í aðra löggjöf sem hefur áhrif á íslenska náttúru. Við eigum líka eftir að vinna betur með almannahagsmunina og skilgreina betur hvernig við ætlum að samræma þau sjónarmið sem ég nefndi áðan. Þá eigum við líka eftir að sjá hvernig reynslan verður varðandi ákvæði um þessa sérstöku vernd og svokallaðar C-minjar.

Að lokum vil ég nefna tillögu hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar. Hann kemur inn með breytingartillögu sem mér finnst allrar athygli verð og byggir svolítið á frumvarpi sem hann og fleiri hafa lagt fram og fjallar um að óheimilt verði að skilja eftir sorp eða úrgang í náttúru Íslands. Mér finnst þetta góð tillaga. Ég tel að við eigum að vera býsna hörð í þeim efnum vegna þess að því miður eru vanhöld á því menn skili sorpi í ruslatunnur eins og þeim ber og við sjáum allt of mikið af því á víðavangi. Þetta á ekki einungis við um sorp á landi, þetta á við um sorp í hafi og úti um allt. Einhvern veginn verðum við að reyna að ná utan um þetta. Ég er fylgjandi því að við reynum að þræða það inn í löggjöfina. En við höfum því miður ekki náð að fjalla um þessa leið í nefndinni. Það hefði verið gott að geta gert það og fengið umsagnir og álit annarra á því. Ég held að það færi vel á því að þingið segði það hér eða nefndin í framhaldsnefndaráliti eða við segðum það við ráðherrann og fengjum hana til þess að taka þetta með inn í vinnuna varðandi almannaréttinn og ferðaþjónustuna og umgengnina alla, þannig að hægt sé að taka á málinu með heildstæðum hætti og skila sérstöku frumvarpi um það til okkar inn í þingið. Ég held að færi vel á því og þá værum við að horfa á þennan þátt heildstæðan. Ég held að þetta sé góð tillaga en maður er ekki alveg búinn að átta sig á því hvernig eftirliti ætti að vera háttað o.s.frv. Hin praktíska útfærsla liggur ekki alveg ljós fyrir mér. Ég vona að ráðherrann taki þetta mál upp á sína arma og haldi áfram vinnu með það.

Ég var spurð í gær hvort allar deilur væru hér með lagðar niður um náttúruvernd. Auðvitað er það ekki þannig. En við erum alla vega komin með grunninn þar sem við getum deilt um hversu langt beri að ganga í vernd náttúrunnar. Ég tel að hér sé tekið býsna stórt skref fram á við náttúrunni í hag. Það er vel. Það skiptir máli. (Forseti hringir.) Ef við höldum áfram að þræða varúðarregluna inn í íslenska löggjöf almennt erum við að vinna með náttúrunni og fyrir hana og það er hið allra besta mál.