145. löggjafarþing — 31. fundur,  11. nóv. 2015.

náttúruvernd.

140. mál
[17:41]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að nota tækifærið og þakka hæstv. ráðherra fyrir viðbrögð hennar við tillögu minni og frumkvæði hennar að því að vilja koma málinu í þennan farveg. Ég hef starfað með hæstv. ráðherra að ýmsu lengi og ég veit að ég get alveg treyst orðum hennar. Ég er sannfærður um að málið fái góða skoðun innan ráðuneytisins. Ég er þess fullviss að það er meirihlutavilji í þinginu fyrir því að fara þessa leið.

Um leið og ég þakka hæstv. ráðherra fyrir viðbrögð hennar nota ég tækifærið og hvet til að unnið sé hratt í þessu efni vegna þess að það liggur á. Því fyrr sem við komum þessu í réttan farveg, því betra. Eins og hæstv. ráðherra nefndi er ósnortin náttúra ekki ósnortin ef það er fullt af drasli þar. Ef okkur tekst ekki að vinna gegn því völdum við gríðarlegum skaða sem kemur beint niður á þjóðarhag, bæði fjárhagslega og með ýmsum öðrum hætti sem aldrei verður metinn til fjár.