145. löggjafarþing — 31. fundur,  11. nóv. 2015.

náttúruvernd.

140. mál
[17:45]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir tillögu hans. Ég held að hún sé góð og að um hana geti orðið almenn samstaða. Vandinn er bara sá að við fengum hana seint. Við vorum búin að fjalla efnislega um alla þætti náttúruverndarlaganna, búin að fara mjög vandlega yfir allt saman með gestum, og áttum bara eftir að púsla saman tillögunum og álitinu. Síðan er 15. nóvember að renna upp þannig að það var helst tímaskortur sem olli því að við náðum því ekki.

Ég fagna yfirlýsingu ráðherra um að vilja skoða þetta hratt og vel. Ég held að nefndarmenn verði vel til í það og kannski ekki síst ef hv. þingmaður fær að mæla fyrir málinu sínu sem komi inn í nefndina, þá er hægt að afgreiða það hratt og vel.