145. löggjafarþing — 31. fundur,  11. nóv. 2015.

náttúruvernd.

140. mál
[17:46]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og sömuleiðis orð hennar. Ég heyri ekki annað en að hv. þingmaður styðji þetta mál eða hugsunina í því. Hins vegar er alveg rétt að þetta kom seint inn eða í rauninni kom þetta aldrei inn samkvæmt þingskapalögunum. Ég tók það bara upp hjá sjálfum mér að senda þetta með tölvupósti á nefndarmenn og hafði rætt við nokkra. Þingmenn hafa ekki möguleika á að koma þessu inn nema með breytingartillögu og menn fari síðan í þetta milli umræðna.

Við erum bara á þeim stað í dag að tæknilega er snúið að klára þetta núna. Ég mun mæla fyrir málinu og vonandi eins hratt og mögulegt er þannig að nefndarmenn geti fengið það. Síðan er ráðuneytið að skoða þetta. Ég heyri ekki bara samhljóm hjá hv. þingmönnum, ég hef ekki heyrt einn einasta þingmann tala gegn þessu, a.m.k. ekki enn, en ég heyri líka samhljóm hjá þjóðinni og það finnst mér mjög gott. Ég ætla ekki að halda því fram að ég heyri í allri þjóðinni, virðulegi forseti, en ég fæ ýmis skilaboð á samfélagsmiðlum, fundum og víðar. Miðað við þau viðbrögð finnst mér vera góður skilningur á þessu.