145. löggjafarþing — 31. fundur,  11. nóv. 2015.

náttúruvernd.

140. mál
[17:50]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það dugar ekki að það sé 11.11. og að fyrir nokkuð mörgum árum hafi stríðandi öfl í fyrri heimsstyrjöldinni hætt. Þegar hv. þm. Össur Skarphéðinsson er annars vegar er ekki gefinn þumlungur eftir. Það er hins vegar ekki allt rétt sem hv. þingmaður sagði. Hann hefur stutt ýmis mál sem ég hef flutt. Þegar við vorum saman í ríkisstjórn studdi hann það til dæmis einarðlega þegar ég lækkaði lyfjakostnað. Það er ýmislegt sem hv. þingmaður hefur gert gott með mér og ég er náttúrlega algjörlega miður mín yfir að hafa valdið honum vonbrigðum. Ég kannast að vísu ekki við að ég sé nýbúinn að fá áhuga á umhverfismálum, en ég ætla ekki að rekja þá sögu hér.

Hins vegar hef ég örugglega ekki talað nógu skýrt í framsöguræðunni. Það er útilokað að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hafi ekki hlustað gaumgæfilega á allt sem ég sagði. Eins og ég skil málið er það svona: Við erum í mikilli tímapressu varðandi náttúruverndarmálið. Það er búið að leggja gríðarlega mikla vinnu í að ná samstöðu um það. Fáir menn eru þingreyndari en hv. þm. Össur Skarphéðinsson og hann veit hvað það þýðir þegar menn eru búnir að ná samkomulagi í viðkvæmum málum, þá má ekki mikið út af bregða. Hv. þingmaður veit að ég er maður friðarins og geri allt hvað ég get til að stilla til friðar. Ef ég sé deilur geri ég auðvitað hvað ég get til að lægja þær. Hér eru ekki bara stjórnarliðar úr hv. umhverfisnefnd heldur fór líka hv. stjórnarandstöðuþingmaður Katrín Júlíusdóttir yfir það að það væri lítill tími til að fá umsagnir eða viðhorf þeirra einstaklinga sem best þekkja til. Við hv. þm. Össur Skarphéðinsson þekkjum báðir að jafnvel mjög góð mál hafa stundum ekki verið nægjanlega vel ígrunduð og hafa kannski (Forseti hringir.) valdið einhverjum skaða af þeim ástæðum. Sérstaklega vegna þess að ég finn þennan stuðning, bæði meðal hv. þingmanna í umhverfisnefnd og hæstv. ráðherra, tel ég víst að við fáum þetta mál fyrr en seinna hingað inn.