145. löggjafarþing — 31. fundur,  11. nóv. 2015.

náttúruvernd.

140. mál
[17:52]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að ég hef oft stutt hans mál, en ég sagði að ég hefði sjaldan getað gert það með góðri samvisku. Það get ég hins [Hlátur í þingsal.] vegar svo sannarlega í þessu tilviki. Hér er um að ræða einfalt, stílhreint og tiltölulega auðskilið mál.

Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni, og hefur þó ekkert að gera með lok fyrri heimsstyrjaldarinnar, að mikill friður hefur brotist út í þessu máli. Þá tel ég að við hefðum átt að nota ferðina, gleðja hv. þingmann og okkur öll með því að nota þetta sem eins konar topp á þá köku sem hér er færð fram til sneiðingar og allir hafa tekið þátt í að búa til. Það hefði verið mjög falleg sáttargjörð til lykta þessu máli.

Ég ætla svo ekki að fara í neinar deilur um það við hv. þingmann hvort hann hafi alltaf verið friðarins maður. Ég hef ekki alltaf þekkt hann eða skoðað hann undir því sjónarhorni og oft fengið að kynnast þeim hliðum hans sem kannski vísa til annars. Ef hv. þingmaður telur hins vegar að það sé sérstaklega (Forseti hringir.) til sátta fallið að falla hér frá þeirri bestu tillögu sem hann hefur flutt ætla ég ekki að mótmæla honum, en ég lýsi ákveðnum söknuði yfir þeim forna kappa sem hér tók alla með sniðglímu á lofti ef þurfti til þess að koma málum í höfn. Í þessu tilviki hefði ég glímt með honum.