145. löggjafarþing — 32. fundur,  12. nóv. 2015.

framlög til Aflsins á Akureyri.

[10:35]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur fyrir fyrirspurnina. Hv. þingmaður hefur áður tekið þetta mál upp. Ég vil benda á í fyrsta lagi að fjárlagafrumvarpið er núna í meðferð þingsins í fjárlaganefnd þar sem hv. þingmaður á sæti og hefur þá tækifæri til að koma á framfæri ábendingum sínum.

Eftir að safnliðirnir svokölluðu fóru yfir til ráðuneytanna höfum við lagt mikla áherslu á fagleg vinnubrögð og faglegt mat á þeim umsóknum sem koma um velferðarstyrkina. Sérstök matsnefnd sem er starfandi innan velferðarráðuneytisins fer yfir allar umsóknirnar og kemur með tillögur um hvernig sé best að standa að úthlutun styrkja. Við fáum fjölmargar umsóknir frá mjög hæfum frjálsum félagasamtökum og því miður getum við sjaldnast orðið við beiðnum frá þeim um þær upphæðir sem þau óska eftir. Fjárveiting til þeirra styrkja sem ráðuneytin veita hefur ekki hækkað og þar af leiðandi eru alltaf minni og minni peningar til skiptanna í ljósi kostnaðarbreytinga almennt í rekstri bæði frjálsra félagasamtaka og annarra.

Ég vil hins vegar benda á að við höfum í ráðuneytinu lagt áherslu á að bæta faglega þjónustu við þá sem verða fyrir ofbeldi. Það höfum við gert með því að setja 10 millj. kr. í að fjármagna stöðu sálfræðings á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Það er sama upphæð í krónum talið og var sett til geðdeildarinnar hér á höfuðborgarsvæðinu þó að það séu umtalsvert færri sem búa á Norðurlandi en á höfuðborgarsvæðinu.

Ég tel að að engu leyti sé verið að gera athugasemdir við starfsemi Aflsins eða annarra félagasamtaka sem við getum því miður ekki komið til móts við miðað við þann fjárlagaramma sem við erum með.