145. löggjafarþing — 32. fundur,  12. nóv. 2015.

framlög til Aflsins á Akureyri.

[10:37]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Þetta svar vekur mér ekki von í brjósti. Ég vil benda á að þetta mál er ekki inni á borði fjárlaganefndar. Það er á safnliðum og heyrir þar af leiðandi undir ráðuneytið. Ég get ekkert gert í fjárlaganefnd í þessu máli, en ég get lagt tillögu fyrir þingið og ég mun þá væntanlega gera það þótt mér sé það á móti skapi vegna þess að mér finnst það ekki vera vinnubrögðin sem við eigum að stunda. Ég vil bara minna á að við 2. umr. fjárlaga ákveður hæstv. ráðherra væntanlega að styrkja Kvenfélagasambandið um 5 millj. kr. og einnig núna í fjárlögum er verið að styrkja Kvenfélagasambandið. Það er verið að styrkja ýmislegt. Þetta er spurning um forgangsröðun. Skipta samtök sem sinna kynferðisofbeldi og eru einu samtökin af þeim toga utan höfuðborgarsvæðisins og þykja mjög mikilvæg á sínu svæði ekki meira máli en svo að þau fái einhverjar 3 milljónir kr. á fjárlögum? Ég átta mig ekki á þessu. Ég mun þá koma fram með breytingartillögu rétt fyrir jól þótt mér sé það á móti skapi því ég hefði viljað sjá ráðherra standa upp og gera betur í þessum málaflokki.