145. löggjafarþing — 32. fundur,  12. nóv. 2015.

staða heilsugæslustöðva og heimilislæknar.

[10:46]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Stefna ráðherrans er sú að styrkja heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað í heilbrigðisþjónustunni. Það er grundvallaratriði. Þannig hljóðar löggjöfin. Ég skal alveg viðurkenna að þegar maður horfir yfir söguna allt til dagsins í dag þá hefur þessu ákvæði ekki verið fylgt nægilega vegna þess að við sjáum að fólk streymir til annarra þátta heilbrigðisþjónustunnar en til heilsugæslunnar.

Þegar hér er sagt, eins og hv. þingmaður nefnir, að margir læknar vilja ekki koma heim erlendis frá til þess að starfa innan heilsugæslunnar þá hef ég heyrt það m.a. innan úr félagi heimilislækna að það stafi m.a. af því að þeir eigi engan annan kost enn þann í núverandi skipulagi en að verða opinberir starfsmenn. Þeir vilji hafa meira frelsi til þess að vinna sína vinnu.

Við erum að hluta til með því sem ég nefndi áðan að reyna að mæta þeim óskum með því að bjóða upp á fleiri rekstrarform en opinberan rekstur. Í þeirri vinnu stöndum við núna. Við erum að leggja síðustu hönd á kröfulýsingu fyrir alla heilsugæslu sama hvort (Forseti hringir.) hún er opinber eða einkarekin. Við erum að endurgera allt fjármögnunarlíkanið og ég vonast til að geta kynnt þetta innan mjög skamms tíma.