145. löggjafarþing — 32. fundur,  12. nóv. 2015.

frumvörp um húsnæðismál.

[10:53]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka enn á ný fyrir andsvarið hjá hv. þingmanni um það sem ég svaraði. Ég treysti því að velferðarnefnd vinni hratt og vel í þessum málum. Hún kannast við þrjú af þeim frumvörpum sem eru á þingmálaskránni hjá mér fyrir haustið. Við höfum líka að sjálfsögðu verið að fara yfir þær athugasemdir sem komu frá umsagnaraðilum við meðferð málsins, m.a. í sumar, og höfum reynt að taka tillit til þeirra eins og hægt er. Ég vænti þess að menn muni vinna vinnuna vel.

Varðandi hins vegar spurningu þingmannsins um það hvort ég teldi að ungt fólk væri að fara til náms eða flytja til útlanda vegna húsnæðismála vil ég bara benda á að staðan á mörgum þéttbýlissvæðum, t.d. á Norðurlöndunum og í Bretlandi, er verri en hér ef eitthvað er. Ég held að við verðum að horfa til einhverra annarra ástæðna en akkúrat húsnæðismála hvað það varðar.

Menn hafa rætt áhyggjur af möguleikum ungs fólks til að taka lán en ég vil benda á að það tengist (Forseti hringir.) neytendalánalöggjöfinni sem hv. þingmaður stóð að og talaði fyrir á sínum tíma sem þrengdi mjög möguleika fólks á að fá lán.