145. löggjafarþing — 32. fundur,  12. nóv. 2015.

nýr Landspítali.

[10:54]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Í upphafi máls míns fagna ég alveg sérstaklega þeim hátíðisdegi, sem ég vil kalla svo, sem var í gær, 11.11., nánar tiltekið kl. 11.11 þegar hæstv. heilbrigðisráðherra skrifaði undir verksamning um byggingu sjúkrahótels á lóð Landspítalans við Hringbraut og tók í framhaldi af því fyrstu skóflustungu að því mikla og góða verki sem þarna hófst að viðstöddu miklu fjölmenni.

Ég vil nota þetta tækifæri og óska okkur öllum, þingmönnum, stjórnendum spítalans og starfsfólki, til hamingju með þennan áfanga sem að mínu mati var í gær upphafið að byggingu nýs spítala. Ég minni á það út af umræðu um staðarval að Alþingi samþykkti þingsályktunartillögu sem ég var 1. flutningsmaður að, sem var lögð fram í október 2013 en samþykkt í maí 2014 með 56 samhljóða atkvæðum, um að fela ríkisstjórninni að ljúka eins fljótt og verða mætti undirbúningi við endurnýjun og uppbyggingu Landspítalans við Hringbraut í Reykjavík og hefja framkvæmdir þegar fjármögnun hefði verið tryggð. Þetta var skýr ályktun Alþingis og eftir henni hefur verið unnið, sem betur fer, og ráðherrann sýnt staðfestu hvað það varðar.

Mínar spurningar til hæstv. ráðherra eru þrjár. Sú fyrsta er um meðferðarkjarnann. Við sjáum að það er tryggt fjármagn til hönnunar og það getur tekið um tvö ár. Er það ekki alveg tryggt af hálfu ríkisstjórnar til Alþingis að fjárframlög verði tryggð til útboðs á réttum tíma og hvenær útboðið gæti farið fram? Meðferðarkjarninn mun spara mikið.

Í öðru lagi spyr ég um rannsóknahúsið. Er tryggt að fjármagn til hönnunar á því húsi sé til staðar? Rannsóknastarfsemi er rekin á tíu stöðum í dag.

Í þriðja og síðasta lagi er kannski mikilvægasta spurningin um sjúkrahótelið sem bygging á hófst í gær: Er ekki alveg tryggt að sjúkrahótelið verði rekið af spítalanum sjálfum (Forseti hringir.) þegar það verður tekið í notkun?

Þetta eru spurningar mínar til hæstv. heilbrigðisráðherra.