145. löggjafarþing — 32. fundur,  12. nóv. 2015.

staða fatlaðra nemenda í framhaldsskólum.

[11:08]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Herra forseti. Á vormánuðum lagði ég fram spurningar til skriflegs svars til hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra um stöðu fatlaðra nemenda í framhaldsskólum. Ég spurðist fyrir um hvort tölulegar upplýsingar lægju fyrir um hve margir fatlaðir nemendur sem greindir eru með skerðingar í grunnskólum lykju framhaldsskóla samanborið við ófatlaða nemendur. Jafnframt hvernig fjármagni sem er úthlutað til framhaldsskóla væri skipt milli fatlaðra nemenda á starfsbrautum á móti öðrum brautum og á grundvelli hvers fjármögnun væri úthlutað. Að lokum vildi ég vita hvernig stuðlað væri að samfellu í þjónustu við fatlaða framhaldsskólanemendur sem þurfa mikla aðstoð við athafnir daglegs lífs og spurðist fyrir um hvort samtal væri hafið um samþættingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar við þjónustu framhaldsskóla.

Um leið og ég vil þakka hæstv. menntamálaráðherra svörin verð ég að viðurkenna að þau ollu mér nokkrum vonbrigðum sökum ónákvæmni. Tel ég því brýnt að þingheimur fjalli um þennan hóp nemenda og fái viðbrögð framkvæmdarvaldsins. Framhaldsskólanemendur sem þurfa mikla aðstoð við daglegar athafnir, einkum þeir sem vilja sækja nám utan starfs- eða sérnámsbrauta, lenda reglulega í verulegum vanda þar sem ekki fylgir þeim nægur stuðningur til þess að geta sinnt námi, heimavinnu og félagslífi. Virðast þeir upplifa að þeir þurfi að velja sér skóla á grundvelli þess hver sé reiðubúinn að veita nauðsynlega aðstoð en ekki á grundvelli áhugasviðs og námsframvindu. Dæmi er um að nemendum sé beint eða óbeint hafnað því framhaldsskóli telur sig ekki geta veitt aðstöðuna sem þörf er á. Auk þess er aðstoðin alla jafna bundin við skólabygginguna svo hún fylgir ekki heimanámi sem er umtalsvert á þessu skólastigi ásamt þátttöku í félagslífi. Sveitarfélögin koma alls ekki alltaf til móts við aðstoð utan skóla sem þó tengist skólanum með beinum hætti.

Lög um framhaldsskóla, aðalnámskrá framhaldsskóla og reglugerð um þjónustu við nemendur með sérþarfir í framhaldsskóla kveða á um að nemendur skuli fá nám við hæfi, námsaðstæður skuli vera aðlagaðar að þörfum þeirra og að öll vinna skuli miðast við að stefna um skóla án aðgreiningar nái fram að ganga, þ.e. að nemendum sé kennt saman þó að þeir fari ólíkar leiðir. Athyglisvert er þó að ýmsa fyrirvara má sjá í þessu skjölum og orðalag eins „eins og kostur er“ kemur víða fyrir sem dregur úr þunga ákvæðanna og þar með réttindum. Enn fremur fjallar reglugerð um þjónustu við nemendur með sérþarfir í framhaldsskólum lítið um nemendur með mikla þörf fyrir aðstoð og hneigist meira að námi í aðgreiningu. Gengur sú nálgun í berhögg við markmiðsákvæði íslenskrar löggjafar á þessu sviði og 24. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem Ísland hefur undirritað og ríkisstjórnin vinnur að fullgildingu á, þótt hægt fari, en þar er m.a. kveðið á um, með leyfi forseta:

„Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks til menntunar. Þau skulu koma á menntakerfi á öllum skólastigum án aðgreiningar …“ og „að fatlað fólk fái nauðsynlegan stuðning innan almenna menntakerfisins til þess að greiða fyrir gagnlegri menntun þess.“

Herra forseti. Fatlað fólk á langa sögu af aðskilnaði og útskúfun úr samfélaginu og hefur hér á landi búið við mjög skert lífsskilyrði og mannréttindi frá upphafi. Það birtist meðan annars í félagslegri einangrun, fátækt og atvinnuleysi og fordómum sem dregur úr þátttöku og áhrifum fólksins og þar af leiðandi virkni og framlagi. Alþjóðlegar skýrslur, til dæmis skýrsla Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar um stöðu fatlaðs fólks í heiminum sem kom út 2011 og skýrsla UNICEF um stöðu fatlaðra barna í heiminum sem kom út 2013, sýna svart á hvítu að tækifæri fólks til menntunar eru mjög skert. Það hættir frekar í námi því þörfum þess er ekki mætt og lýkur því síður framhaldsmenntun. Það hefur eðli málsins samkvæmt áhrif á atvinnutækifæri þess, fjárhagsstöðu og þar af leiðandi félagslega virkni og heilsu, svo fátt eitt sé nefnt. Fatlaðar konur eru í sérstökum áhættuhópi hvað þetta varðar. Í báðum skýrslum kemur fram að skortur á tölulegum upplýsingum um fatlað fólk og stöðu þess á ýmsum sviðum samfélaga geri að verkum að hópurinn týnist og erfitt sé að átta sig á raunverulegri stöðu mála. Það stuðlar að hættu á aðgerðaleysi stjórnvalda og aukinni mismunun.

Herra forseti. Ef við sjáum ekki vandann höfum við tilhneigingu til þess að láta eins og hann sé ekki til staðar. Okkur ber að hafa miklar áhyggjur af þessu. Hæstv. menntamálaráðherra segir í svörum sínum að ekki sé hægt að safna upplýsingum um fatlaða nemendur því það brjóti persónuverndarlög. Vissulega er gagnaöflun vandmeðfarin en eins og í fjöldanum öllum af málaflokkum öflum við gagna um stöðu mála og því er augljóst að það að safna gögnum um fjölda nemenda sem hefja framhaldsskóla með fötlun og ljúka honum eru ekki persónuupplýsingar.

Óska ég eftir viðbrögðum hæstv. menntamálaráðherra um þessi mál og vandaðri umræðu okkar allra í dag.