145. löggjafarþing — 32. fundur,  12. nóv. 2015.

staða fatlaðra nemenda í framhaldsskólum.

[11:21]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Páli Val Björnssyni fyrir að hefja þessa umræðu sem er svo sannarlega þörf. Ég tek undir að ég hefði viljað hafa svör ráðherra svolítið fyllri.

Af því að ég hef starfað með nemendum sem hafa átt við einhvers konar röskun að etja á starfsbraut, þar sem hér var verið að ræða að gefa fólki kost á því að vera í námi við hæfi án aðgreiningar, þá hef ég alla vega í störfum mínum séð hvað tilfærsla á milli skólastiga skiptir miklu máli, þ.e. þegar nemendur fara úr grunnskóla yfir í framhaldsskóla hafi átt sér stað einhver samtöl á milli þeirra skóla sem nemendur eru að koma frá og þeirra sem nemendur eru að koma til, skólastiganna beggja og skólafólksins sem við tekur, þannig að nemendur upplifi ekki óöryggi og finnist þung spor að fara í nýtt umhverfi.

Þegar við erum hins vegar að tala um fatlað fólk þá erum við auðvitað að tala um ótrúlega breitt litróf. Við erum að tala um fólk með hreyfihömlun, við erum að tala um fólk með þroskaskerðingu, við erum að tala um daufblinda eða dvergvaxna o.fl. Hreyfihömlun, þroskaskerðing og ýmislegt er þar á bak við og það skiptir allt máli. Þarfirnar eru gríðarlega ólíkar. Við sem glímum ekki við það stöndum til dæmis ekki frammi fyrir því að það sé vandamál að hlaupa eftir lykli á læst klósett. Það getur verið stórkostlegt mál fyrir einhvern sem er mjög hreyfihamlaður og á auðvitað ekki að vera þannig.

Ég tek undir það að fólk eigi að hafa val um það með hvaða hætti það sinnir námi sínu í skólanum. En auðvitað snýst þetta fyrst og fremst um að ríkið uppfylli skyldur sínar þegar kemur að þjónustu við fatlað fólk. Þegar ég (Forseti hringir.) bíð eftir svari við fyrirspurn, m.a. vegna (Forseti hringir.) námsefnis fyrir heyrnarlaus börn, og ítrekað hefur verið beðið um frest þá virðist það vera í mikilli upplausn (Forseti hringir.) í ráðuneytinu hvernig standa eigi að því að sinna fólki með einhvers konar hömlun.