145. löggjafarþing — 32. fundur,  12. nóv. 2015.

staða fatlaðra nemenda í framhaldsskólum.

[11:25]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það er oft og mundi ég halda reyndar yfirleitt mjög mikill munur á upplifun fatlaðs fólks og ófatlaðs fólks gagnvart flestu í lífinu. Það sem virðist vera mjög lítið mál fyrir ófatlað fólk getur mjög auðveldlega orðið óyfirstíganlegt fyrir fatlað fólk og þar sem umræddur hópur er jú afskaplega fjölbreyttur þá þarf mjög lítið hugsunarleysi til þess að gengið sé mjög nærri réttindum fatlaðs fólks.

Það eru til í það minnsta tvær tegundir af tillitsleysi, ein er t.d. þegar maður notar bílastæði sem hugsað er fyrir fatlað fólk, eitthvað sem maður gerir og gengur einhvern veginn á réttindi fatlaðs fólks. Síðan er til önnur tegund af tillitsleysi sem er einfaldlega hugsunarleysi, t.d. það að gera við hús þannig að það verður ekki lengur aðgengilegt fyrir fatlað fólk, hugsunarleysi þar sem ekki er horft til þess að þessum hópi þarf að sýna meðvitað tillit. Við þurfum að sýna meðvitað tillit þegar við setjum lög og reglugerðir sem varða nokkurn þann hlut sem getur varðað fatlað fólk og varðar að sjálfsögðu líka í meginatriðum og væntanlega öllum hagsmuni ófatlaðs fólks.

Þegar við setjum slíkar reglugerðir og slík lög er mikilvægt að við höfum þetta í huga. Við þurfum að sýna meðvitað tillit. Það er ekki nóg að skauta fram hjá einhverjum vandamálum, við þurfum að leggja vinnu af hendi til þess að tryggja og vernda réttindi þessa hóps.

Þetta er eitthvað sem ég sé aftur og aftur í umræðunni og þegar ég hitti fatlað fólk að það upplifi sig útskúfað úr samfélaginu. Það er vegna þess að það er útskúfað úr samfélaginu. Það er útskúfað með venjulegu hugsunarleysi. Vel meinandi og gott fólk sem vill vel og vill ekki sýna neinum tillitsleysi eða vanvirðingu gerir það samt ef það gerir bara þau einföldu mistök að gleyma. Það gerum við öll. Við verðum að hafa það í huga þegar við setjum reglur og lög um hvaða málaflokk sem er, þar á meðal menntun.