145. löggjafarþing — 32. fundur,  12. nóv. 2015.

staða fatlaðra nemenda í framhaldsskólum.

[11:27]
Horfa

Heiða Kristín Helgadóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ég vil eins og allir aðrir þakka hv. þm. Páli Val Björnssyni fyrir þessa umræðu því að ég held að þetta sé einmitt einn af þeim hlutum sem við getum aldrei hætt að tala um. Það fer svolítið saman við það sem hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson var að segja áðan að margt af því sem við setjum í reglugerðir og lög og í umhverfið sem við búum okkur til á það til að vera mjög hugsunarlaust gagnvart þeim sem eru ófatlaðir, einfaldlega vegna þess að þeir eru ekki hér í jafn miklum mæli og við hin sem erum ófötluð. Þannig að tillitsleysi er innbyggt í mikið af okkar strúktúr. Ég held að þetta sé eitt af því mikilvægasta sem við þurfum að berjast fyrir að breyta, þ.e. að stíga til hliðar og hleypa fleirum og ólíkari sjónarmiðum að. Einungis þannig getum við hægt og bítandi fært okkur í áttina að betra og réttlátara samfélagi. Við vitum það öll að í dag eru hlutirnir ekki eins og við mundum vilja hafa þá en við þurfum alltaf að halda áfram að reyna. Eitt af því sem við ættum að gera til þess að minna okkur á og búa okkur til betri strúktúr er að staðfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Annað sem mig langar að nefna er hvað tekur við eftir framhaldsskólanám fatlaðs fólks. Er atvinnulífið undir það búið að taka við einstaklingum með ólíka fötlun í vinnu? Ég held að það sé alls ekki oft þannig. Það er eitthvað sem ég veit ekki hvort við getum sett mikið af boðum og bönnum um en við ættum að tala í auknum mæli um það og reyna að stuðla að því að atvinnulífið taki á móti þeim sem við erum að mennta í menntakerfinu óháð því hvernig þeir eru líkamlega til þess búnir.