145. löggjafarþing — 32. fundur,  12. nóv. 2015.

staða fatlaðra nemenda í framhaldsskólum.

[11:29]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka að þessi umræða skuli fara fram um málefni fatlaðs fólks. Þegar ég tala um fötlun er ég að tala um fjölbreytt róf, fötlun, þroskahömlun, greindarskerðingu. Skólaganga þessara systra okkar og bræðra er mannréttindi og sem betur fer hefur ýmislegt gerst á þeim 25 árum, skulum við segja, sem ég þekki best til í þessum málaflokki.

Um aldamótin síðustu var til dæmis einungis boðið upp á tveggja ára nám í fjölbrautaskólum. Árið 2000 gerðist það að opnaðar voru starfsnámsbrautir til fjögurra ára í það minnsta í tveimur framhaldsskólum í Reykjavík. Það er einmitt vandamál sem ég held að fólk úti á landsbyggðinni standi andspænis þegar um frávik er að ræða því að þá þarf það að flytja úr sinni heimabyggð. Það er alls ekki nógu gott. Í þessum málaflokki eru, eins og ég sagði, frávikin mjög mismunandi og aðlögun þarf að miðast við hvern þann einstakling sem um er að ræða.

Ég vil í þessu sambandi minna á að þetta fólk, þessir samborgarar okkar og bræður og systur, hefur tekið fagnandi öllum þeim úrræðum sem því hefur boðist. Í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ var það á þann veg að fyrsti hópurinn sem fór þar í gegnum fjögurra ára nám skilaði þakklæti sínu með því að mæta upp á hvern einasta dag og var allur sá hópur með 100% mætingu.

Ég er ekki að segja að við séum komin langt. Við þurfum líka að horfa til þess hvað gerist eftir að framhaldsskóla (Forseti hringir.) lýkur. Þá ætla ég bara að minna á að við verðum að styðja við diplómanám (Forseti hringir.) á mennta- og vísindasviði Háskóla Íslands.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu með þessum orðum.