145. löggjafarþing — 32. fundur,  12. nóv. 2015.

staða fatlaðra nemenda í framhaldsskólum.

[11:32]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég vil líkt og aðrir þingmenn þakka hv. þm. Páli Val Björnssyni fyrir að hefja máls á þessu hér. Orð eru til alls fyrst, er sagt, og þess vegna þurfum við að tala um þetta. Kannski þurfum við að tala um það oftar en gert er og ekki síst í ljósi þess að ég varð fyrir vonbrigðum með svör ráðherrans sem voru á þann veg að mér fannst eins og hann hefði farið í lagasafnið og lesið þaðan upp hverju fólk ætti rétt á, en þessi umræða er hafin einmitt út af því að fólk fær ekki það sem lögin segja að það eigi að fá. Ég vona að ráðherrann komi hingað í lokaræðu sinni og lýsi yfir fullum vilja til þess að gera það sem hann getur til að þessi mál fari í betri farveg en þau eru.

Það var líka ánægjulegt að heyra frá hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur hvar hlutirnir eru vel gerðir. Það mætti kannski beina því til ráðuneytisins að það vísaði á umræddan skóla öðrum til eftirbreytni þannig að hver lærði af öðrum.

Lokatakmarkið hlýtur náttúrlega að vera, virðulegi forseti, að við tryggjum öllu fólki, jafnt fötluðu sem ófötluðu, að það fái að njóta þeirra réttinda sem við höfum sett í lög en lesum ekki bara upp úr lagasafninu.