145. löggjafarþing — 32. fundur,  12. nóv. 2015.

staða fatlaðra nemenda í framhaldsskólum.

[11:34]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa mikilvægu umræðu. Í skýrslunni Fordómar og félagsleg útskúfun, sem unnin var að beiðni velferðarráðuneytisins árið 2014, kemur fram að niðurstaða margra rannsókna sé sú að framhaldsskólar starfi ekki eftir hugmyndafræði um skóla án aðgreiningar.

Mig langar að vitna í samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Í 24. gr. segir, með leyfi forseta, að aðildarríkin tryggi „að fatlað fólk fái nauðsynlegan stuðning innan hins almenna menntakerfis til þess að stuðla að haldgóðri menntun þess“ og „að árangursríkar, einstaklingsbundnar stuðningsaðgerðir séu boðnar fram í umhverfi sem ýtir hvað mest undir framvindu í námi og félagslega þróun sem aftur samræmist því markmiði að fatlað fólk geti lifað í samfélaginu án nokkurrar aðgreiningar“.

Fatlað fólk er gríðarlega fjölbreyttur hópur en skortur á formlegri menntun hefur staðið fötluðu fólki fyrir þrifum þegar kemur að atvinnu. Rannsóknir sýna að eftir því sem menntun fatlaðs fólks er meiri því meiri líkur eru á að það sé virkt á vinnumarkaði. Möguleikar fatlaðs fólks til að stunda framhaldsskólanám skipta því alveg gríðarlega miklu máli. Við verðum að skoða þetta í stærra samhengi því að nú er til dæmis mikið til umræðu að taka upp starfsgetumat þar sem þátttaka á vinnumarkaði er grundvallaratriði til að fatlað fólk geti framfleytt sér. Við verðum þess vegna alltaf að hugsa um málefni fatlaðs fólks sem part af stærri heild, heild sem heitir samfélag. (Forseti hringir.) Framhaldsskólinn og menntun í framhaldsskóla er einn mjög stór liður (Forseti hringir.) í því að fatlað fólk geti tekið þátt í samfélaginu til jafns við aðra.