145. löggjafarþing — 32. fundur,  12. nóv. 2015.

staða fatlaðra nemenda í framhaldsskólum.

[11:37]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka umræðuna enda er hún mikilvæg og mjög margt áhugavert hefur komið fram. Mér sýnist í fljótu bragði að við ¾ af framhaldsskólunum í landinu sé rekin starfsbraut. Þar sem ég þekki til er starfið í kringum þessar brautir til fyrirmyndar. Ég velti hins vegar fyrir mér nemendunum í þeim fjórðungi skóla þar sem ekki er rekin starfsbraut. Þeir fara á mis við það að kynnast þeim nemendum sem þar gætu stundað nám og því starfi sem þar er í kring því að starfsbrautin er ekki eingöngu fyrir þá sem hana sækja heldur líka fyrir skólasamfélagið í heild.

Þjónusta við nemendur á starfsbrautum er yfirleitt vel innrömmuð og góð tenging við félagsþjónustu, grunnskóla og aðra sem komu á undan. Hins vegar vantar upp á fyrirsjáanleika og gagnsæi í fjárveitingum þar sem þær eru eftir á.

Það kom líka verulega á óvart svarið við fyrirspurninni sem hv. þm. Páll Valur Björnsson lagði fram síðastliðið vor, að ekki væru til neinar heildartölur um nemendur á starfsbrautum eða nemendur sem þurfa að fá sérstakan stuðning í framhaldsskólum. Hvernig á að vera mögulegt að fjármagna og stýra og meta árangur af verkefni sem ekki er til nein heildarmynd af?

Ég tek undir það sjónarmið að mikilvægt sé að þjónusta í daglegu lífi verði óháð skólunum en skólarnir ábyrgir fyrir einstaklingsnámskrám og kennslu, en auðvitað þarf oft og tíðum að samþætta þessa þjónustu og það getur verið til bóta.

Ég vil líka aðeins koma inn á hér í lokin að ég hef ekki síður áhyggjur af þeim nemendum sem ekki falla undir starfssvið starfsbrautanna. Þeir nemendur eru dálítið týndir, hvort sem það eru nemendur sem (Forseti hringir.) vilja stunda nám á öðrum brautum þrátt fyrir einhverja fötlun eða (Forseti hringir.) nemendur sem ekki teljast fatlaðir en þurfa samt mikinn stuðning.