145. löggjafarþing — 32. fundur,  12. nóv. 2015.

staða fatlaðra nemenda í framhaldsskólum.

[11:42]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka enn og aftur málshefjanda, hv. þingmanni, og öðrum hv. þingmönnum fyrir umræðuna hér. Ég tek fram af því að það var fundið að því að það vantaði hita í málið að yfirskrift þessarar umræðu er eftirfarandi, virðulegi forseti:

Sérstök umræða um réttindi fatlaðra nemenda í framhaldsskólum með áherslu á gagnaöflun og stöðu fatlaðra nemenda í framhaldsskólum og rétt þeirra til aðstoðar óháð því hvaða námsbrautir þeir velja.

Að sjálfsögðu ber ráðherra, þegar yfirskrift umræðunnar er þessi, að beina sjónum sínum að þeim lagaákvæðum og réttindum sem nemendum eru tryggð með því. Það skýrir mína ræðu, virðulegi forseti. Jafnframt legg ég á það áherslu að síðan er spurningin um samhengið á milli fjárveitinga og þeirra réttinda sem kveðið er á um í lögum sem ræður því þjónustustigi sem við bjóðum upp á. Ég tel skipta máli að við séum komin í það minnsta á þann stað að 23 af 31 framhaldsskóla skuli starfrækja starfsbraut. Ég tel það ánægjuefni og ég hef kynnt mér þessa starfsemi ágætlega, virðulegi forseti, og leyfi mér að fullyrða að það er víða frábærlega staðið að verki, þarna er fólk sem vinnur afrek á hverjum einasta degi í störfum sínum í þessari þjónustu. Ég er líka sammála því og við getum öll verið sammála því að við getum gert betur og þurfum að gera betur. Ég nefndi það í ræðu minni að meðal annars væri mikilvægt að auka samstarfið og samtalið milli ólíkra ráðuneyta sem koma að þessum málaflokki.

Ég vek sérstaklega athygli á þeim ummælum sem hér féllu um hvað tekur við þeim einstaklingum sem ljúka framhaldsskólanáminu. Ég held að það skipti máli að horfa til þessa því að ég veit að foreldrar barna sem fá þessa þjónustu eru oft og tíðum ánægð með það sem þarna er í boði og kvíða því þegar börnin þeirra fara úr þessu þjónustuformi. Í raun og veru er lítið sem tekur þá við. Ég held að það sé alveg sérstök ástæða fyrir okkur til að horfa til þessa og ég skal (Forseti hringir.) bregðast við þeirri ágætu brýningu sem hv. málshefjandi hafði til mín um að reyna að gera allt okkar besta í þessum málaflokki því að þörfin er svo sannarlega til staðar.