145. löggjafarþing — 32. fundur,  12. nóv. 2015.

RÚV-skýrslan.

[11:44]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Yfirskrift þessa samtals okkar hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra er svokölluð RÚV-skýrsla, en af málinu sjálfu leiðir að umræðan mun sjálfsagt verða nokkuð víðari en bara skýrslan sem slík. Ég vænti þess að hæstv. ráðherra sé tilbúinn til að eiga við mig orðastað um stöðu Ríkisútvarpsins í lengd og bráð.

Í fyrsta lagi langar mig að segja að Ríkisútvarpið hefur búið við þann veruleika í íslensku samfélagi um langt árabil að Sjálfstæðisflokkurinn hefur sérstaklega haft horn í síðu þeirrar stofnunar. Það hefur gjarnan endurspeglast í ályktunum ungliðahreyfinga Sjálfstæðisflokksins, SUS og Heimdallar. Þegar hæst hefur látið höfum við séð þess stað á landsfundum flokksins og slíkum samkomum að flokkurinn í heild hefur beinlínis ályktað með því að selja Ríkisútvarpið, leggja það niður eða með einhverju móti koma því út af kortinu sem fjölmiðli í almannaþágu.

Þetta er pólitískur veruleiki sem hefur verið til staðar um nokkurt árabil eins og ég nefndi hér og að jafnaði hefur það verið þannig að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki haft mikinn stuðning í kringum sig, hvorki í stjórn né stjórnarandstöðu, í þeim leiðangri. Nú hefur borið svo við að framsóknarmenn hafa sumir hverjir stigið fram og talað gegn Ríkisútvarpinu. Það var beinlínis þannig að fyrrverandi menntamálaráðherra Björn Bjarnason fagnaði því sérstaklega að nú væri loksins komið pólitískt lag til að vaða í Ríkisútvarpið vegna þess að nú væri Sjálfstæðisflokkurinn með svo góðan félagsskap í ríkisstjórn og stemning fyrir því að vaða í að leggja Ríkisútvarpið niður.

Ég taldi ástæðu til að nefna þetta vegna þess að þegar ný ríkisstjórn tók við var byrjað á því með nokkuð bröttum hætti að auka pólitísk tök á stjórn Ríkisútvarpsins og í því ljósi þarf ég að spyrja hæstv. ráðherra um ástæður úttektarinnar eða þeirrar skýrslu sem hér er til umræðu. Hver er ástæðan fyrir því að óskað var eftir henni og hver er ástæðan fyrir því að hér er beinlínis óskað eftir skýrslu frá innanbúðarmanni í Sjálfstæðisflokknum? Ég velti því fyrir mér hvort hæstv. ráðherra átti sig ekki á því að þar með er trúverðugleiki skýrslunnar fyrir bí, eins og raunar hefur komið í ljós í umræðunni, ekki bara vegna þess heldur vegna einstakra efnisþátta hennar.

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra um útvarpsgjaldið. Hér hefur hann talað um að hann vilji tryggja að útvarpsgjaldið muni ekki lækka þrátt fyrir að formaður fjárlaganefndar hafi haldið öðru fram. Ég vil spyrja hvort hæstv. ráðherra hafi átt samtöl við útvarpsstjóra um stöðu útvarpsgjaldsins og hvort útvarpsstjóri hafi skilyrt áframhaldandi stýringu sína á Ríkisútvarpinu við það að útvarpsgjaldið muni ekki lækka og að tekið verði á lífeyrisskuldbindingum Ríkisútvarpsins. Hefur þetta sérstaklega verið rætt á fundum ráðherra og útvarpsstjóra? Í nýlegu viðtali við útvarpsstjóra kemur fram að yfirlýsingar menntamálaráðherra séu að útvarpsgjaldið lækki ekki frekar. Hann segir, með leyfi forseta:

„Ef þetta gengur eftir, eins og hann hefur lagt upp með, þá á að vera hægt að tryggja hér áframhaldandi öfluga innlenda dagskrá sem á erindi við íslenska þjóð. Ef þessar forsendur bresta, þá þarf að sjálfsögðu að bregðast við því.“

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann skilji þessi orð útvarpsstjóra.

Það liggur auðvitað fyrir að öruggt rekstrarumhverfi og samningar til langs tíma í senn eru yfirlýst markmið stjórnenda RÚV og hafa verið um árabil. Ég spyr hæstv. ráðherra hvernig hann sjái fyrir sér að geta tryggt þann stöðugleika í rekstrarumhverfi og fjárhagslegum grundvelli Ríkisútvarpsins eða hvort hann sjái það fyrir sér að fara í endurskoðun á lögum og þar með endurskoðun á hlutverki Ríkisútvarpsins. Það liggur algerlega fyrir miðað við núgildandi lög að Ríkisútvarpinu hefur verið of þröngur stakkur skorinn miðað við þau áform að lækka útvarpsgjaldið.

Mig langar að árétta spurningu mína varðandi lífeyrisskuldavandann sem er eitt langstærsta einstaka vandamál Ríkisútvarpsins, hvort ráðherra hyggist taka á því og þá með hvaða hætti. Hann hefur líka talað um ohf.-formið. Þá vil ég spyrja hann um það hvernig hann sjái fyrir sér að taka á því sérstaklega, hvaða framtíðarsýn hann hafi hvað það varðar. Ráðherrann hefur boðað þingsályktunartillögu um framtíð Ríkisútvarpsins í vor og ég vil spyrja hvert verði megininnihald hennar.