145. löggjafarþing — 32. fundur,  12. nóv. 2015.

RÚV-skýrslan.

[11:49]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hefja hér umræðu um Ríkisútvarpið og fyrirliggjandi skýrslu. Í upphafi máls síns hélt hv. þingmaður því fram að Sjálfstæðisflokkurinn hefði sérstakt horn í síðu Ríkisútvarpsins. Ég held að þetta sé fulleinfölduð orðræða. Þetta mál snýst mest um það markmið sem við setjum okkur með afskiptum ríkisins á fjölmiðlamarkaði, hvernig við til dæmis tryggjum best menningu þjóðarinnar, sögu okkar og tungu, að því sé sem best miðlað til þjóðarinnar, grundvöll lýðræðislegrar umræðu í fjölmiðlum o.s.frv.

Síðan getur menn greint á um hvaða leiðir séu bestar að því markmiði. Þeir eru til sem telja að besta leiðin sé í gegnum ríkisrekinn fjölmiðil, aðrir telja það ekki bestu leiðina. Eins og ég segi held ég að það sé fullmikil einföldun að nálgast þetta eins og hv. þingmaður gerði í upphafi síns máls vegna þess að þá er raunverulega verið að líta svo á að markmiðið sé Ríkisútvarpið sjálft. Ég lít hins vegar svo á að Ríkisútvarpið sé leið að markmiði. Ég tel reyndar að þetta sé góð leið og ég er í hópi þeirra sem telja þörf fyrir ríkisútvarp en ég er ekki þeirrar skoðunar að það sé mótað í eitt skipti fyrir öll, greypt í stein og óbreytanlegt. Það þarf að þróa þá stofnun eins og aðrar stofnanir í ljósi þess umhverfis og þeirrar tækni sem breytist dag frá degi um þessar mundir.

Hvað varðar þá skýrslu sem hér er til umræðu lét hv. þingmaður þau orð falla að trúverðugleiki hennar væri fyrir bí vegna tvenns, annars vegar þess að einn af þremur nefndarmönnum tengdist Sjálfstæðisflokknum og hins vegar vegna einstakra efnisþátta eins og það var orðað. Þá vil ég segja, virðulegur forseti, að í nefndinni sátu þrír einstaklingar, Svanbjörn Thoroddsen sem er þekktur fyrir sín störf á sviði fyrirtækjaráðgjafar og úttektar á rekstri fyrirtækja, embættismaður úr fjármálaráðuneytinu sem hefur meðal annars komið að skoðun á rekstri Ríkisútvarpsins og síðan, alveg hárrétt, Eyþór Arnalds sem hefur heilmikla reynslu af rekstri opinberrar stofnunar eins og sveitarfélags. Hann kemur úr menningargeiranum og þekkir líka vel til fjarskiptageirans svo dæmi séu tekin.

Ég tel það ekki til framdráttar umræðu hér um Ríkisútvarpið að fara þá leiðina að segja að skýrslan sé ómarktæk og benda á einstaklinginn. Menn eiga að ræða efnisatriði þessa máls, ekki reyna að hlaupa bak við einstaklingana.

Ég heyrði ekki í ræðu hv. þingmanns tekið fram af hennar hálfu einstök veigamikil atriði sem efnislegur ágreiningur er um. Vitanlega eru alltaf deilur um einstök efnisatriði í skýrslu eins og þessari, túlkun á þeim eða jafnvel það hvort menn telja réttar tölur frammi eða ekki. Fyrir mér vakir það eitt að svona úttekt sé gerð af utanaðkomandi aðilum. Ríkisútvarpið og forustumenn þess geta síðan, og munu og hafa, brugðist við þeim tölum, lagt fram gögn sín og sjónarmið. Saman virt byggir þetta grunn sem við alþingismenn getum nýtt okkur þegar við ræðum til dæmis hvert útvarpsgjaldið á að vera.

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spurði mig hvort sú staða hefði komið upp í samtölum mínum við útvarpsstjóra að útvarpsstjórinn hefði sett einhvers konar skilyrði fyrir áframhaldandi störfum sínum. Ekkert slíkt hefur verið gert, engin slík skilyrði sett og aldrei komið til umræðu.

Hvað varðar orð sem fallið hafa um forsendubrest er þar um það að ræða að ef útvarpsgjaldið lækkar þurfi að grípa til niðurskurðaraðgerða. Það er þá mat útvarpsstjóra, það segir sig sjálft og það er til þess sem útvarpsstjórinn er væntanlega að vísa.

Hvað varðar lífeyrissjóðsgreiðslurnar kemur fram í skýrslunni að fjármagnskostnaður Ríkisútvarpsins er um 6%. Menn geta síðan borið það saman við fjármagnskostnað ýmissa annarra stofnana en það er alveg rétt að það eru þungar lífeyrissjóðsskuldbindingar á þessari stofnun og það er til umhugsunar.

Hvað varðar aftur á móti áform mín eða skoðun á útvarpsgjaldinu lýsti ég því yfir strax síðastliðið vor að ég teldi ekki ástæðu til að lækka það og heldur ekki til að hækka það, heldur að það stæði í stað. Sú skoðun mín hefur komið fram áður.

Hvað varðar væntanlega þingsályktunartillögu get ég ekkert sagt til um efni hennar. Það þarf að fara fram heilmikil vinna um það þar sem ég hafði þá hugsað mér að menn mundu skoða það og leggja grunn að umræðu í þinginu um hver framtíð stofnunarinnar yrði, hvaða breytingar við sæjum á henni á næstu árum sem meðal annars endurspegla þær breytingar sem hafa orðið í framboði á skemmtiefni, ýmsu afþreyingarefni, fræðsluefni og menningarefni sem kemur nú úr svo mörgum áttum, efni sem áður var ekki aðgengilegt almenningi. (Forseti hringir.)

Aðalatriðið í þessu hvað mig varðar, það er mín afstaða, er að ég tel þörf á nútímafjölmiðlamarkaði fyrir Ríkisútvarpið en ég er ekki þeirrar skoðunar að það sé meitlað í stein í eitt skipti fyrir öll hvernig sú stofnun eigi að vera uppbyggð.