145. löggjafarþing — 32. fundur,  12. nóv. 2015.

RÚV-skýrslan.

[11:55]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Undir nýrri forustu er rekstur RÚV nú hallalaus samfara stóraukinni innlendri dagskrárgerð. Það væri fráleitt að refsa fyrir þann góða árangur með því að lækka nú útvarpsgjaldið, tekjur stofnunarinnar. Þvert á móti er full ástæða til að verðlauna slíkan árangur og nauðsynlegt að ráðherra málaflokksins taki af öll tvímæli um að hann hafi stuðning stjórnarmeirihlutans fyrir því að halda útvarpsgjaldinu óbreyttu. Ef svo er ekki, ef stjórnarmeirihlutinn ætlar með handafli að lækka útvarpsgjaldið um áramót, er ekki hægt að skilja það öðruvísi en sem pólitíska aðför að útvarpinu, sem tilraun til að kúga útvarpið frá gagnrýninni umfjöllun sem það hefur uppi um ríkisstjórn á hverjum tíma. Ég kalla þess vegna eftir því að ráðherrann segi okkur af eða á hvort stjórnarmeirihlutinn ætli að hafa gjaldið óbreytt eða lækka það. Í landinu er enginn að kalla eftir því að útvarpsgjaldið hans verði lækkað um 116 kr. á mánuði ef það þýðir stórfelldan niðurskurð hjá ríkisútvarpinu okkar.

Það er líka full ástæða til að losa Ríkisútvarpið við lífeyrisskuldbindingar þær sem hlaðið var á það við stofnun opinbers hlutafélags. Ef hverfa þarf frá opinberu hlutafélagi er sjálfsagt að ræða það, ríkisstofnun eða sjálfseignarstofnun. Skilyrðið fyrir því er þó að sjálfstæði Ríkisútvarpsins verði tryggt, sjálfstæði þess frá endurtekinni pólitískri aðför af hálfu forustumanna stjórnarflokkanna á þessu kjörtímabili, þar á meðal jafn veigamikilla forustumanna og þeirra sem fara með forustu í fjárlaganefnd. Það eru auðvitað pólitískar aðfarir sem engin leið er að búa við í siðuðu samfélagi árið 2015.