145. löggjafarþing — 32. fundur,  12. nóv. 2015.

RÚV-skýrslan.

[12:14]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu og fagna henni. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að þörf sé fyrir ríkisútvarp til að rækta íslenska tungu, miðla íslenskri menningu, efla tengsl við landsbyggðina, fyrir börn, fyrir Íslendinga, fyrir innflytjendur og fyrir lýðræðislega umræðu og fréttaumfjöllun. Á hverjum tíma er þó mikilvægt að skoða hvernig hlutverkinu verður best sinnt í takti við samfélagið eins og það er hverju sinni.

Ég fagna því umræddri skýrslu og tel hana gagnlega fyrir umræðuna til að draga fram mismunandi sjónarmið og skoðanir, hvað sem mér finnst svo um einstök efnisatriði hennar. Mér finnst til dæmis mikilvægt að það hafi verið dregið fram að sú leið sem farin var við uppsetningu stafræns dreifikerfis RÚV hafi hugsanlega ekki verið sú hagstæðasta fyrir þjóðina. Mér er kunnugt um að á þeim tíma sem sú ákvörðun var tekin lágu þegar fyrir ábendingar um að skynsamlegt væri að nýta fjármagn sem færi í að byggja upp dreifikerfi um land allt á annan veg, m.a. með því að sameina krafta við uppbyggingu ljósleiðara.

Það er þó líklega ekki eingöngu við RÚV að sakast í þessu því að við höfum búið okkur til regluverk um fjarskipti sem hefur orðið okkur fjötur um fót í uppbyggingu í dreifðum byggðum og orðið til þess að fjármagni sem nýtt hefur verið í uppbyggingu dreifikerfis hefur ekki verið vel varið. Mun meira hefur farið í þetta verkefni en við hefðum kannski í heildina þurft að kosta til ef við hefðum sameinað kraftana fyrr.