145. löggjafarþing — 32. fundur,  12. nóv. 2015.

RÚV-skýrslan.

[12:16]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Ég þakka ágæta umræðu. Ég held þó að í lok hennar þurfi ég að hnykkja á því að ekki verður við það unað að þessari umræðu ljúki öðruvísi en að hæstv. ráðherra svari mjög skýrt spurningunni um stöðu útvarpsgjaldsins. Hann hefur sjálfur sagt að hann sé þeirrar skoðunar — þá talar hann eins og hann sé partur af einhverri óskilgreindri heild og hafi takmörkuð áhrif á þá heild, sem þingmaður væntanlega — að útvarpsgjaldið eigi að vera óbreytt. Stjórnmálamenn og þingmenn í lykilstöðu í meiri hluta þingsins, þeim meiri hluta sem styður ríkisstjórnina, hafa haldið öðru fram, hafa haldið því fram að það eigi að lækka, m.a. formaður fjárlaganefndar. (VigH: Fara bara að lögum. …) Þetta stendur út af. Hún kallar hér fram í, eins og oft áður, að það snúist um að fara bara að lögum. Hæstv. ráðherra þarf nú að gera okkur grein fyrir, ekki bara sinni afstöðu í málinu heldur því hvort það sé meiri hluti á þinginu, hvort hann tali fyrir munn ríkisstjórnarflokkanna og ríkisstjórnarinnar, fyrir því að útvarpsgjaldið verði óbreytt eins og hann sjálfur hefur rökstutt að sé mikilvægt, eins og útvarpsstjóri sjálfur hefur útskýrt að sé mikilvægt, vegna þess að ég get sannfært hæstv. ráðherra um að hann mun njóta víðtæks stuðnings í þinginu ef hann leggur fram frumvarp þess efnis þó að hann þurfi hugsanlega að glíma við einstaka andstæðinga Ríkisútvarpsins í þinginu, m.a. formann fjárlaganefndar. Hann getur að minnsta kosti ekki stigið frá þessari umræðu hér í dag öðruvísi en að tala skýrar en hann hefur gert hingað til.

Er meiri hluti (Forseti hringir.) í þinginu fyrir óbreyttu útvarpsgjaldi?