145. löggjafarþing — 32. fundur,  12. nóv. 2015.

náttúruvernd.

140. mál
[12:24]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Um leið og ég fagna því að við séum núna loksins að lögfesta löggjöfina frá 2013 sem við höfum ítrekað frestað gildistökunni á eru engu að síður ákveðin atriði sem maður hefði viljað sjá öðruvísi. Þessi löggjöf er ekki endilega meitluð í stein og við þurfum að fylgjast með því með hvaða hætti framkvæmd byggð á þessari löggjöf verður og þá kannski ekki síst hvað varúðarregluna varðar. Síðan er áframhaldandi vinna fyrirhuguð hvað almannaréttinn varðar.

Við erum gríðarlega ánægð með að vinnu við þessa löggjöf skuli vera að ljúka, þessari stóru endurskoðun sem hófst 2009 þegar menn byrjuðu að skrifa hvítbók um náttúruvernd sem löggjöfin frá 2013 byggir á og er verið að lögfesta með þessum breytingum. Við fögnum þessari niðurstöðu, hér eru málamiðlanir sem við munum standa með og styðja þrátt fyrir að við höfum (Forseti hringir.) í draumum okkar viljað sjá niðurstöðuna aðeins öðruvísi. Við erum engu að síður ánægð með þá niðurstöðu og það framfaraskref sem hér er stigið.