145. löggjafarþing — 32. fundur,  12. nóv. 2015.

náttúruvernd.

140. mál
[12:27]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram. Hér er stigið mikið framfaraspor með samþykkt þessara laga. Okkur hefur gengið vel að vinna í þessari löggjöf í umhverfis- og samgöngunefnd og ég vil, án þess að á nokkurn sé hallað, þakka sérstaklega fyrrverandi umhverfisráðherra sem hefur verið nefndinni alveg gríðarlegur akkur í þessari vinnu, enda er hv. þm. Svandís Svavarsdóttir upphafsmaður þessa máls. Það er mjög ánægjulegt að með þessu verða lög nr. 60/2013 loksins að veruleika. Ég fagna því.

Í málinu eru auðvitað málamiðlanir þar sem maður hefði í sumum tilfellum viljað ganga lengra. Við náum ekki saman um utanvegaaksturinn og við í minni hlutanum erum með breytingartillögu. Ég ætla að kalla hana til 3. umr. en hvet menn til að skoða þá tillögu vegna þess að hún felur í sér engar efnisbreytingar en er miklu snyrtilegri og vandaðri en orðalagið sem er að finna í frumvarpinu.