145. löggjafarþing — 32. fundur,  12. nóv. 2015.

náttúruvernd.

140. mál
[12:33]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í a-lið 1. gr. frumvarpsins erum við núna að greiða atkvæði um það að orðin „eftir miðja 18. öld“ falli brott þegar kemur að skilgreiningu á því hvað eru framandi lífverur. Ég vil af því tilefni beina sjónum að því sem stendur í nefndaráliti um það atriði. Það er auðvitað gert ráð fyrir því að áfram verði byggt á faglegu mati Náttúrufræðistofnunar sem gefur út lista um þau atriði. Sömuleiðis kemur fram í nefndarálitinu og nefndin áréttar að mikilvægt sé að unnið sé með bestu mögulegu þekkingu í hvert skipti, en komi hins vegar upp vafi hvað varðar flokkun framandi lífvera eigi að miða við 18. öld.

Ég vildi árétta það sem stendur í nefndarálitinu um þetta. Það getur skipt máli þar sem sá vafi getur mjög hæglega komið upp að gögn séu ekki nægilega skýr um það hvenær skilgreiningin eigi við og hvenær ekki.