145. löggjafarþing — 33. fundur,  12. nóv. 2015.

náttúruvernd.

140. mál
[13:36]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Þar sem við erum komin að lokum máls taldi ég rétt að nefna nokkur atriði. Þau hafa flest þegar verið nefnd í þessari stuttu 3. umr. um þetta stóra mál.

Í fyrsta lagi, af því að hv. þm. Birgir Ármannsson nefndi stöðu varúðarreglunnar og hvernig við komum henni fyrir í löggjöfinni, er mikilvægt að halda því til haga að um er að ræða aðferð sem á sér ekki beina fyrirmynd þar sem við gerum beinlínis eins og er gert annars staðar, eins og við gerum oft í löggjöf, heldur höfum við eftir töluverða yfirlegu og miklar vangaveltur komist að þeirri niðurstöðu með lögfræðilegum ráðgjöfum okkar að þetta sé leið sem sé vænleg til árangurs, þ.e. að tilgreina varúðarregluna sérstaklega þar sem hún á við í náttúruverndarlögunum sjálfum en ekki síður að geta hennar sérstaklega í bæði skipulagslögum og mannvirkjalögum. Þar er mikilvægt að halda þeim skilningi til haga að varúðarregluna, þ.e. 9. gr. náttúruverndarlaga, ber að hafa í huga eða byggja á henni þegar verið er að gefa út leyfi á grundvelli mannvirkjalaga eða skipulagslaga.

Ég vil líka taka undir það sem kom fram hjá hv. þm. Birgi Ármannssyni varðandi þann sameiginlega skilning nefndarinnar að í framhaldi af því sem hér er lagt til leggjum við áherslu á að mikilvægt sé að bæta varúðarreglunni inn í aðra löggjöf þar sem hún á við og gæta að því að hún fái í raun og veru stoð í öllum öðrum lagabálkum þar sem um samspil framkvæmda og náttúru er að ræða. Þetta þurfum við að gera. Það má segja að það séu næstu skref.

Það er ekki síður mikilvægt, eins og kemur raunar fram í nefndarálitinu, að gæta sérstaklega að því í samstarfi Alþingis, þingnefndarinnar og ráðuneytisins að vakta og fylgjast vel með því hvernig framkvæmd þessara laga reiðir af og hvernig henni vindur áfram, sérstaklega að því er varðar framkvæmd varúðarreglunnar, svo að við getum metið það jafnharðan hvernig þessi útfærsla gefst nákvæmlega og hvort ástæða sé til þess að bregðast við með einhverju móti og lagfæra annaðhvort lagabókstafinn eða styrkja framkvæmdina. Þetta er afar mikilvægt að gera því að það er sameiginlegur skilningur okkar í nefndinni að nauðsynlegt sé að vel takist til.

Aðeins varðandi það sem hér hefur verið rætt líka og snýst um breytingartillöguna sem hv. þm. Róbert Marshall mælti fyrir og við erum meðflutningsmenn að í minni hluta nefndarinnar og lýtur að utanvegaakstri. Hv. þingmaður gerði ágæta grein fyrir breytingartillögunni að því er varðar störf við landbúnað utan miðhálendisins, sem eru orð sem við söknum í lagatextanum. Þingmenn hv. meiri hluta hafa áréttað það og telja það koma skýrt fram í nefndaráliti að sá skilningur á lagatextanum sé fyrir hendi og að þar sé verið að tala um störf í landbúnaði utan miðhálendis. Í síðari liðnum, þ.e. b-liðnum, freistum við þess að ná betur utan um þá staðreynd í lögum að við viljum að utanvegaakstur sé bannaður nema með undanþágum, þ.e. ef við tökum landbúnaðinn út fyrir sviga. Þá erum við að reyna að ná utan um það og orða það með þeim hætti að sómi sé að þannig að lögin séu gagnsæ og aðgengileg þeim sem þurfa að fara eftir þeim. Ég bendi hv. þingmönnum á að það gæti jafnvel verið samkvæmisleikur einhvern tíma ef botninn væri að detta úr góðri veislu að lesa ákvæðið upp eins og það er núna og eins og nefndin leggur til að það verði klárað vegna þess að það er ógurlegur langhundur og erfitt að halda þræði. Á þriðju línu eða svo er þráðurinn trosnaður og maður verður að byrja að lesa aftur. Þannig viljum við ekki hafa löggjöf. Það var það sem við vorum að freista þess að gera með þessari breytingu.

Hv. þm. Vilhjálmur Árnason fór yfir það og ég er sammála honum að ef við hefðum haft meiri tíma til þess að rýna þessa tilteknu grein þá hefðum við komist að sameiginlegri niðurstöðu um hana. Hins vegar vil ég aðeins leiðrétta það sem kom fram í máli hans þegar hann taldi að sú afurð sem við værum með hér væri niðurstaða frumvarpsins frá 2013 því að svo er ekki. Við erum í raun með eina útgáfu í lögunum frá 1999 með reglugerðinni, svo erum við með frumvarp ráðherra frá 2013 og síðan erum við með niðurstöðu nefndarinnar undir tímapressu með alls konar breytingum þar sem stendur meðal annars hin óborganlega setning að bændur og búalið megi aka utan vega, þ.e. ekkert endilega í þágu landbúnaðar heldur geta þau bara gert það svona almennt. Það var niðurstaða nefndarinnar og niðurstaða þingsins 2013. Síðan fær ráðuneytið þennan kafla ásamt öðrum til sérstakrar skoðunar, eftir leiðsögn hv. umhverfis- og samgöngunefndar, með nefndarálitinu 2014. Það sem við erum að vinna með núna er afurðin af því. Það er ekki eins og niðurstaðan sem við erum hér með sé afurðin af vinnunni frá árinu 2013 heldur erum við í raun og veru enn þá, eða ég vil líta þannig á, í því ferli að ná góðri niðurstöðu með þennan kafla.

Eitt vil ég taka fram sem hefur ekki verið rætt enn þá varðandi þessa tilteknu breytingu og þá erum við komin í dálítið tæknilegt mál, en efnislega skiptir það mjög miklu máli að varúðarreglan skuli vera hér inni. Varúðarreglan er nefnd með utanvegaaksturskaflanum, þ.e. það á að beita varúðarreglunni þar. Við getum bara beitt henni þegar þarf að fara í undanþáguferli og taka ákvarðanir um undanþágu. Hún á bara við þar. Þegar undanþágan er skrifuð inn í lagatextann og þarf ekki að sækja hana sérstaklega þá gildir hún ekki. Þannig að vegna starfa við landgræðslu, heftingu landbrots, vegalagnir, línulagnir og lagningu annarra veitukerfa, björgunarstörf, lögreglustörf, sjúkraflutninga, rannsóknir, landmælingar og landbúnað, enda sé ekki unnt að vinna viðkomandi störf á annan hátt — við öll þessi tilvik gildir að þau falla utan varúðarreglunnar með þessari útfærslu. Með þeirri nálgun sem við leggjum til falla allir þessir þættir innan varúðarreglu utan björgunarstarfa, lögreglustarfa, slökkviliðsstarfa og sjúkraflutninga sem falla undir nokkurs konar neyðarleyfi.

Ég veit að það er ekki til þess fallið að vekja mikla spennu í þingsal en varúðarreglan er ákveðinn varnagli þegar um er að ræða svo mikilvægan þátt. Margir náttúruverndarar hafa sagt að utanvegaakstur sé kannski sá þáttur sem náttúrunni stafi mest ógn af. Þar er eiginlega mesta hættan á ferð og mikilvægast að hnýta hnútana vel og skrúfa skrúfurnar fast. Það er hinn kjarninn í tillögu okkar sem hv. þm. Róbert Marshall mælti hér fyrir. Að öðru leyti held ég að ég hafi gert grein fyrir málinu hér fyrir mína parta í 2. umr.