145. löggjafarþing — 33. fundur,  12. nóv. 2015.

stefna og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára.

338. mál
[13:57]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um stefnu- og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára.

Framlagning þessa máls er í samræmi við þingsályktun nr. 8/143 þar sem heilbrigðisráðherra var falið að vinna að stefnu- og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum í samvinnu við félags- og húsnæðismálaráðherra og leggja fyrir Alþingi.

Í þingsályktunartillögunni er skilgreint eitt meginmarkmið og þrjú undirmarkmið. Einnig er sett fram aðgerðaáætlun til að nálgast markmiðin og tilgreind eru markmið fyrir hverja aðgerð ásamt tímasetningu á framkvæmd þeirra. Þingsályktunartillagan sjálf skiptist í þrjá kafla sem bera heitin „Samþætt og samfelld þjónusta við fólk með geðraskanir og fjölskyldur þeirra“, „Geðrækt og forvarnir“ og í þriðja lagi „Fordómar og mismunun“.

Í fyrsta kaflanum er sett fram markmið um að þjónusta við einstaklinga með geðraskanir sé samþætt og samfelld. Það er ekki tilviljun að það er fyrsti kaflinn því að skortur á samhæfingu þjónustukerfa og þjónustustiga er nokkuð sem almennt er kvartað mjög yfir varðandi langvinna sjúkdóma almennt og var þetta atriði flestum ofarlega í huga við undirbúning þessarar þingsályktunartillögu. Í kaflanum er meðal annars lagt til að leiða í lög að sveitarfélög og ríki geri með sér samstarfssamninga um útfærslu samþættrar þjónustu við einstaklinga sem glíma við geðraskanir á viðkomandi þjónustusvæðum. Einnig er lagt til að auka framboð á sálfræðiþjónustu í heilsugæslunni með því að ráða sálfræðinga í auknum mæli á heilsugæslustöðvar. Lagt er til að þverfaglegum geðheilsuteymum heilbrigðis- og félagsþjónustu verði komið á fót til að fólk sem glímir við geðraskanir geti sótt þjónustu í nærumhverfi en jafnframt er gerð tillaga um að efla þekkingu í félags- og heilbrigðisþjónustu á geðheilsu og geðröskunum svo að þar sé betur hægt að takast á við vægar geðraskanir. Þá er lagt til að barna- og unglingageðdeildin, BUGL, verði styrkt á næstu árum til að útrýma óhæfilega löngum biðlistum þar. Gert er ráð fyrir að innleiða sérstakt verkefni í heilsugæslu til að auka stuðning vegna barna foreldra með geðraskanir. Þá er einnig lagt til að byggja upp þekkingu á hjúkrunarheimilum til að þau séu betur í stakk búin til að þjóna fólki með geðraskanir sem þar dvelur.

Í öðrum kaflanum, um geðrækt og forvarnir, er sett fram markmið um að uppeldisskilyrði barna stuðli að vellíðan þeirra, góðri geðheilsu og félagsfærni. Því er sjónum þar með mest beint að börnum þar sem forvarnir til að draga úr hættu á að börn þrói með sér geðvanda skili mestum árangri og mestri aukningu á lífsgæðum þegar til lengri tíma er litið. Vissulega eru forvarnir líka mikilvægar fyrir fullorðna en það þurfti að forgangsraða í verkinu og við forgangsröðuðum börnum við gerð þessarar stefnu.

Aðgerðirnar sem lagðar eru til eru meðal annars að setja á fót þverfagleg teymi í nærumhverfi sem sinna fræðslu, þjálfun, ráðgjöf og stuðningi við foreldra og að fundnar og leitað verði að áhrifaríkum aðgerðum til geðræktar í skólum. Lagt er til að skimað verði fyrir kvíða og þunglyndi meðal grunnskólabarna og veitt viðeigandi meðferð í kjölfarið og einnig að settur verði á fót starfshópur til að finna árangursríkar aðferðir til að draga úr sjálfsvígum meðal ungmenna ásamt því að áætla kostnað við innleiðingu og að gera innleiðingaráætlun.

Í þriðja kaflanum er horft til fordóma og mismununar. Það er þekkt að fólk með geðraskanir verði því miður enn fyrir fordómum af hálfu samfélagsins. Markmið þessa kafla er að fólki verði ekki mismunað á grundvelli geðheilsu. Aðgerðirnar sem settar eru fram í þessu skyni eru meðal annars að fundnar verði gagnrýnar aðferðir til að draga úr fordómum í garð fólks með geðraskanir og að settar verði fram leiðbeiningar fyrir fjölmiðla um það hvernig unnt verði að fjalla um geðheilbrigðismál án þess að alið sé á fordómum.

Ein aðgerð miðar að því að ráða fólk með geðraskanir til starfa og kanna hvort vera þess á vinnustað hafi áhrif á afstöðu samstarfsfólks til fólks með geðraskanir. Einnig er lagt til að hluti af almennri heilsufarsskoðun hælisleitenda við komuna til landsins verði að leggja mat á geðheilsu þeirra.

Reynt hefur verið eftir bestu getu að meta kostnað við framkvæmd aðgerðanna. Fáeinar aðgerðir eru taldar innan almennra verkefna hins opinbera en heildarkostnaður við tillögurnar á þessum fjórum árum er um 562 milljónir kr. Þar vega þyngst kostnaður við geðheilsuteymi, kostnaður vegna ráðningar sálfræðinga á heilsugæslustöðvar og kostnaður við að efla þjónustu barna- og unglingageðdeildar Landspítala – háskólasjúkrahúss.

Við undirbúning og vinnu þessarar þingsályktunartillögu var tvennt aðallega haft að leiðarljósi. Annars vegar að hafa sem víðtækast samráð eftir því sem hinn naumi tími og tímarammi leyfði og hins vegar var verkefnið að vinna að því að setja fram stefnu sem væri skýr, aðgerðamiðuð og framkvæmanleg á fjórum árum. Í upphafi verkefnisins var haldinn opinn kynningarfundur um það og verklagið sem ætlunin var að vinna eftir. Á þeim fundi voru haldnar eins konar örvinnustofur þar sem fundarmenn höfðu tækifæri til að koma með ábendingar og tillögur til fulltrúa í stýrihópi verkefnisins sem hafði verið skipaður. Í kjölfarið á þessu uppleggi störfuðu fimm undirhópar og fjallaði hver hópur um einn afmarkaðan þátt geðheilbrigðismála og skilaði tillögum að aðgerðum til stýrihópsins. Í þessari vinnu komu fram fjölmargar tillögur sem allflestar áttu fullt erindi í þá tillögu sem hér er lögð fram. En til að setja fram tillögu sem er framkvæmanleg á næstu fjórum árum varð, eins og áður hefur komið fram, að velja úr og forgangsraða. Það hefur verið gert og er niðurstaða þeirrar forgangsröðunar hér lögð fram í þeirri þingsályktun sem hér er til umræðu. Drög að þingsályktunartillögunni voru sett á vef velferðarráðuneytisins til umsagnar.

Öllum sem tekið höfðu þátt í starfi hópanna eða komið á kynningarfundinn var send ábending um að tillagan væri komin á vef ráðuneytisins og alls bárust í því ferli 28 umsagnir. Ég vil við þetta tækifæri þakka öllum þeim sem hafa komið að þessu verki, báðum stýrihópnum og ekki síður því ágæta fólki öllu öðru sem kom að verkum.

Ég vil nefna það líka hér, undir lok míns máls, að ástæða er til að fagna þeirri vitundarvakningu sem hefur átt sér stað í þessum málaflokki, geðheilbrigðismálunum, og má nefna hér að ég átti þess kost í gær að funda með Heilabrotum sem er ungmennaráð UNICEF sem hefur mikinn áhuga á þessu verki og hefur í raun sett fram skýra og mjög markvissa kröfu um aðgerðaáætlun.

Virðulegi forseti. Ég hef í þessu máli mínu gert grein fyrir meginatriðum þeirrar tillögu sem hér liggur fyrir. Það er von mín að hún geti orðið til þess að styrkja stöðu fólks sem glímir við geðvanda eða geðsjúkdóma en geti jafnframt stuðlað að því að styðja fjölskyldur í uppeldishlutverkum sínum og draga úr hættu á að geðvandi meðal barna og ungmenna þróist á verri veg.

Ég vil svo að lokum leggja til að tillögunni verði, að lokinni þeirri umræðu sem hér á sér stað, vísað til hv. velferðarnefndar og síðari umræðu.