145. löggjafarþing — 33. fundur,  12. nóv. 2015.

stefna og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára.

338. mál
[14:13]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa áætlun og er sammála því sem komið hefur fram, að þetta er afskaplega tímabært. Fram undan eru spennandi verkefni sem við munum glíma við þegar við framfylgjum áætluninni. Ég hef einmitt verið að velta fyrir mér búsetuúrræðum. Mér finnst þetta skammur tími ef við erum að hugsa um allt landið í því sambandi, ekki bara höfuðborgarsvæðið. Hér segir, með leyfi forseta:

„Mælanlegt markmið: Sá hópur sem nú bíður útskriftar af geðdeild hafi flust í viðeigandi húsnæði fyrir árslok 2016.“

Á þetta við bara um Reykjavík eða er þetta til dæmis líka á Akureyri eða annars staðar þar sem fólk er hjá opinberum stofnunum sem þar ætti ekki að vera miðað við ástand sitt?

Síðan langar mig að spyrja út í B. 3, þar sem talað er um að skimað verði fyrir kvíða, þunglyndi og áhrifum áfalla meðal barna í efstu bekkjum grunnskóla. Þar er minnst á Breiðholt þar sem skimað hefur verið fyrir þessum þáttum í samstarfi Þjónustumiðstöðvar Breiðholts og grunnskólanna í Breiðholti frá 2009. Svo er talað um verkefnið Hug og heilsu, sem sögð er vera gagnreynd aðferð (e. evidence based) sem byggist m.a. á hugrænni atferlismeðferð. Síðan kemur í beinu framhaldi að skimað sé fyrir einkennum alvarlegrar geðlægðar í 9. bekk grunnskóla. Er verkefnið Hugur og heilsa alls staðar á landinu eða bara í Breiðholti?

Þetta var það sem mig langaði að spyrja um í fyrstu atrennu.