145. löggjafarþing — 33. fundur,  12. nóv. 2015.

stefna og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára.

338. mál
[14:15]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið. Varðandi spurningu hv. þingmanns um skimunina sem fjallað er um í tillögu B.3, þau tvö módel sem koma til greina og verið er að horfa til, þá er allt landið undir ef og þegar við förum til skimunarinnar, það er einfaldlega þannig.

Síðan varðandi búsetuúrræðin sem hv. þingmaður spurði út í þá er engu slíku til að dreifa nema hjá Kleppsspítala þar sem við erum í raun með fólk bundið inni sem ekki er lengur til beinna lækninga á sjúkrahúsi. Kleppsspítali er eina þjónustuúrræðið í geðheilbrigðismálum þar sem fólk læsist inni á spítala vegna þess að það kemst ekki aftur út. Við erum ekki með nein viðlíka vandamál annars staðar á landinu.

Ég er sammála hv. þingmanni í því að það eru mörg spennandi verkefni þarna og verður fróðlegt að sjá hvaða ávöxt þau bera og ánægjulegt að hafa möguleika á því að leggja fram þessa þingsályktunartillögu. Ég stend í þeirri meiningu að tillagan sé mjög vel unnin að því leyti að hún reynir að beina í ákveðinn farveg ýmsum sjónarmiðum sem verið hafa uppi í geðheilbrigðismálum í langan tíma en eru töluvert tvístruð í kerfinu og meðal fólks. Ég bind vonir við að það eitt að beina þeim öllum í sama stefnuskjal muni skila okkur til muna meiri og betri árangri en við höfum hingað til náð í þessum málaflokki heilbrigðisþjónustunnar.