145. löggjafarþing — 33. fundur,  12. nóv. 2015.

stefna og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára.

338. mál
[14:20]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þessi þingsályktunartillaga sé komin fram. Það var þannig að þegar ég var saklaus borgari, áður en ég fór á þing, þá hélt ég einfaldlega að stjórnvöld væru alltaf að vinna eftir stefnu í öllum mikilvægum málum, ekki síst í málefnum sem þessum. Það kom mér því mjög á óvart þegar ég settist á þing að sjá í hversu mörgum málaflokkum er lítil stefna og verið að taka tilviljanakenndar ákvarðanir út og suður. Þetta finnst mér þess vegna algerlega skref í rétta átt. Ég skil í rauninni að menn takmarki umfangið og setji niður tillögur og ákveði að vinna að þeim þótt ég hefði auðvitað viljað sjá meira þarna inni, en ég skil markmiðið með því.

Það sem veldur mér áhyggjum þegar ég skoða kostnaðarmatið er að þótt gott sé að fá þetta yfirlit og tilraun til kostnaðarmats finnst mér margir þættir vera inni sem rúmast innan ramma fjárlaga og ég er hrædd um að við séum alltaf að auka á álagið og bæta við verkefnum án þess að gera ráð fyrir því að það þurfi fólk til að vinna þau. Mér finnst of margir liðir og mér finnst þetta vel sloppið með 562 milljónir. Ég hefði haldið að svona átak mundi kosta kannski 2 milljarða, ef vel ætti að vera. Ég hugsa að þessi upphæð hérna, 500 milljónir, sé varla umsýslukostnaðurinn út af skuldaniðurfellingunni, bara til að setja þetta í samhengi við eitthvað annað. Ég vil spyrja hvort hæstv. ráðherra telji þetta raunhæft, hvort hann mundi ekki vilja sjá meira fé, því að eins og kemur fram í greinargerð sparast kostnaður til lengri tíma ef vel tekst til. Við erum sú þjóð sem notum hvað mest til dæmis af þunglyndislyfjum, það er mikill fjöldi í greiningum og við notum mikið af lyfjum við ofvirkni, athyglisbresti og öðru slíku. Maður hefði haldið að ef þetta væri gert af fullum krafti og almennilega mundu sparast töluverðar upphæðir til lengri tíma. Mér finnst þetta lág upphæð, ég verð að segja það, og kannski ekki alveg raunhæf.