145. löggjafarþing — 33. fundur,  12. nóv. 2015.

stefna og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára.

338. mál
[14:24]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að við séum öll sammála um að þetta sé gott skref í rétta átt. Ég er sammála hæstv. ráðherra um að það sé oft hægt að gera mikið fyrir lítið, sérstaklega í þessum málaflokki, og vel hægt að nýta þekkingu og krafta sem fyrir eru í kerfinu. En mér finnst of mikið af því að það eigi allt að rúmast innan ramma fjárlaga. Þetta kemur bara í ljós og við höldum hæstv. ráðherra við efnið.

Mig langar að spyrja aðeins út í C.4 á bls. 6 þar sem talað er um að í reglubundinni heilsufarsskoðun hælisleitenda verði lagt mat á geðheilsu þeirra. Ég held að þetta sé mjög gott mál. Það vakna hjá mér spurningar varðandi málaflokk sem eru fangar sem eiga við geðheilbrigðisvandamál að stríða — við höfum haft eitt dæmi sem hæstv. ráðherra þekkir örugglega mætavel — hvort það rúmist einhvers staðar í þessari áætlun. Það er þannig að þeir sem eiga í þessum vanda leiðast kannski frekar út í glæpi og þurfa sérstaka aðstoð og þjónustu. Er það einhvern veginn skrifað inn í áætlunina?