145. löggjafarþing — 33. fundur,  12. nóv. 2015.

stefna og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára.

338. mál
[14:42]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Eins og komið hefur fram þá ræðum við hér tillögu til þingsályktunar um stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára. Um er að ræða afar mikilvæga tillögu sem hefur að meginmarkmiði að auka vellíðan og stuðla að betri geðheilsu landsmanna og virkari samfélagsþátttöku einstaklinga sem glíma við geðraskanir til skemmri eða lengri tíma óháð búsetu þeirra.

Mig langaði aðallega að fara í nokkur atriði er varða tillöguna. Ég fagna því verulega að þessi þingsályktunartillaga sé komin fram og þeim markmiðum og þeirri aðgerðaáætlun sem hún inniheldur.

Undirmarkmið tillögunnar er, eins og fram kom í ræðu hæstv. heilbrigðisráðherra, að þjónusta við einstaklinga með geðraskanir sé samþætt og samfelld, að uppeldisskilyrði barna stuðli að vellíðan þeirra og að fólki verði ekki mismunað á grundvelli geðheilsu.

Ef við skoðum aðeins undirmarkmið 1, að þjónusta við einstaklinga með geðraskanir sé samþætt og samfelld, kemur meðal annars fram að bundið verði í lög að ríki og sveitarfélög geri með sér samstarfssamninga um útfærslu samþættrar þjónustu við einstaklinga með geðraskanir. Þetta er sett fram með það að markmiði að auka samstarf milli þjónustuaðila á vegum ríkis og sveitarfélaga. Þarna eru ýmsir aðilar taldir til eins og félags-, heilbrigðis- og menntakerfið og samstarfsaðilar, landlæknir, heilbrigðisstofnanir, mennta- og menningarmálaráðuneyti og sveitarfélög og þjónustusvæði í málefnum fatlaðra.

Önnur áætlun, undir lið A.3, er meðal annars að þjónusta sálfræðinga standi til boða á heilsugæslustöðvum og heilbrigðisstofnunum sem sinna heilsugæslu í samræmi við samsetningu og stærð þjónustusvæða. Þetta er sett fram með það að markmiði að fólk geti fengið meðferð og stuðning sálfræðinga á heilsugæslustöðvum vegna algengustu geðraskana, svo sem þunglyndis og kvíðaraskana.

Ég fagna því verulega að skref séu stigin í þessum efnum í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2015 en þar kemur meðal annars fram að fjölga eigi sálfræðingum á heilbrigðisstofnunum og heilsugæslustöðvum um átta á árinu 2016. Þar er unnið samkvæmt bresku módeli sem hefur það að markmiði að hafa einn sálfræðing á hverja 9.000 íbúa og unnið er samkvæmt þeirri áætlun fram til 2020, til að ná því markmiði, en afar mikilvægt er að fjölga sálfræðingum til að bæta aðgengi almennings að þeim. Auk þess er nauðsynlegt að niðurgreiða þann kostnað sem einstaklingar þurfa að greiða fyrir sálfræðiþjónustu í dag, en sá kostnaður er, að ég held, um 13.000 krónur hver stakur tími.

Önnur áætlun, undir lið A.6, er að þjónusta á göngudeild BUGL verði efld með það að markmiði að stytta biðlista þannig að börn þurfi ekki að bíða eftir þjónustu. Því miður er það staðreynd í dag að börn og ungmenni þurfa að bíða í of langan tíma eftir þjónustu deildarinnar. Ég fagna því að í tímamarkmiði komi fram að árið 2019 eigi að vera búið að útrýma þeim biðlistum sem eru á göngudeild BUGL. Ég verð þó að viðurkenna að fyrir einstaklinga sem eiga í vanda, og fjölskyldur þeirra, er tíminn svolítið langur, en vert er að fagna því að skref séu stigin í þá átt að stytta og útrýma biðlistum.

Það er líklegt að einstaklingur sem fær aðstoð þegar á þarf að halda, þegar hægt er að bregðast við vanda eins fljótt og mögulegt er og eins vel og mögulegt er, nái betri líðan, geti stundað nám sitt, að fjölskyldan geti sinnt sínum daglegu hlutum og að allir þessir einstaklingar geti fyrr lagt sitt til samfélagsins í formi menntunar eða vinnu o.s.frv. En það sem skiptir mestu máli er að þessum einstaklingum líði betur.

Ég ætla að vinda mér í nokkur atriði sem falla undir undirmarkmið 2, sem er það að uppeldisskilyrði barna stuðli að vellíðan þeirra, góðri geðheilsu og félagsfærni. Þá er sett í áætlun að sett verði á fót þverfaglegt teymi í nærumhverfi sem sinni fræðslu, þjálfun, ráðgjöf og stuðningi við foreldra og fjölskyldur. Markmiðið er að styðja foreldra í uppeldis- og umönnunarhlutverki sínu og áætlað er að framkvæmd fari þannig fram að þverfaglegt teymi fagfólks verði sett á fót í samstarfi ríkis og sveitarfélaga sem veitir þjónustu í náinni samvinnu við heilsugæslu, félagsþjónustu og skóla.

Þessu ákvæði vil ég fagna sérstaklega. Ég veit af eigin reynslu hve mikilvægur þessi þáttur er. Ég hef gengið í gegnum greiningarferli með barn sem hefur fengið fötlunargreiningu. Í þeim þáttum sem ég þekkti til og kom að var þverfaglegt teymi sem tók við fræðslu, þjálfun, ráðgjöf og stuðningi eftir að greiningu lauk. Það voru foreldrar, aðstandendur, starfsfólkið sem vann með einstaklinginn og fleiri sem komu þar að. Afar jákvætt er að yfirfæra eigi þessa þjónustu yfir á geðheilbrigðismál því að sú reynsla sem ég þekki til á þessari vinnu hefur gefið góða raun, meðal annars með ákveðnum stöðufundum með aðstandendum og öllum aðilum þar í kring, um það hvernig gengið hefur með einstaklinginn og hvaða markmið eru sett í framhaldi og hvernig eigi að halda áfram til að stuðla að eins góðri líðan og mögulegt er. Þessu fagna ég verulega. Þetta mun án efa styrkja einstaklinga og aðstandendur þeirra sem standa í þessum sporum.

Næsta áætlun, sem fer undir undirmarkmið 2, liður B.3, er að skimað verði fyrir kvíða, þunglyndi og áhrifum áfalla meðal barna í efstu deildum grunnskóla og veittur verði viðeigandi stuðningur eða meðferð ef viðkomandi telst í áhættuhópi. Markmiðið er að grípa snemma inn í og veita börnum sem glíma við kvíða og afleiðingar áfalla stuðning til að draga úr hættu á að mál þróist á verri veg.

Vert er að geta þess, eins og fram kemur í greinargerð með þingsályktunartillögunni, að unnið hefur verið að þessum málum í Breiðholti frá árinu 2009. Þar hefur verið skimað fyrir depurð, eða meðal annars er það eitt af þeim verkefnum, og kvíða meðal unglinga. Um er að ræða samstarfsverkefni Þjónustumiðstöðvar Breiðholts og grunnskólanna í Breiðholti. Í framhaldi af fyrirlögn skimunarlista hefur verið hringt í alla foreldra barna sem mælast yfir hættuviðmiðum, þau boðuð í viðtal og námskeið og bent á leiðir. Þetta hefur gefið góða raun. Ef ákveðin alvarleg merki koma í ljós er hringt til foreldra samdægurs, upplýst um stöðuna og boðað í viðtal. Þau námskeið sem boðið er upp á varðandi þessa þætti byggjast á hugrænni atferlismeðferð sem hefur gefið mjög góða raun.

Ég vil minnast á markmið sem er byggt upp á þingsályktunartillögu hv. þm. Karls Garðarssonar sem hann lagði fram á þingi síðasta þingvetur. Mál hans hlaut afgreiðslu hér í þingsal og gekk þar næst til hv. velferðarnefndar þar sem það var tekið til afgreiðslu og vísað til ráðuneytis inn í þá vinnu sem var í gangi um að móta þá aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum sem við ræðum hér og nú.

Annað atriði, sem fellur undir undirmarkmið 2, liður B.4, er að sett verði fram áætlun um innleiðingu gagnreyndra aðferða til að draga úr sjálfsvígum ungmenna. Hér er mikilvægt að málið gangi hratt og vel og að einstaklingar sem þurfa aðstoð fái hana þegar á þarf að halda. Því ber að fagna að í fjárlögum fyrir árið 2016 er verið að fjölga sálfræðingum eins og kom fram áðan til að auka aðgengi að þeim.

Ef við skoðum undirmarkmið 3 þá er þar fjallað um fordóma og mismunun og að unnið sé að því að fólki sé ekki mismunað á grundvelli geðheilsu. Því miður hefur það verið ákveðið tabú hér á landi, ef maður leyfir sér, með leyfi forseta, að segja það. Því miður hafa of margir ekki treyst sér til að segja hvað er að ef um andleg veikindi er að ræða. Of oft hefur það verið falið undir einhverju öðru eins og að fólk komist ekki af því að það sé með magapest eða höfuðverk, ég held að við þekkjum öll einhver dæmi um það. Ég tel að það ákvæði sem kemur fram í undirmarkmiði 3 sé mjög mikilvægt, að vinna á fordómum og mismunun sem ég tel að hafi farið mjög svo minnkandi í okkar samfélagi á undanförnum árum.

Ég fagna því átaki eða vitundarvakningu sem varðar þennan málaflokk sem heitir „Ég er ekki tabú“, þar sem fólk er farið að stíga fram og segja frá sínum veikindum.

Virðulegur forseti. Ég er afar stolt af þeirri vitundarvakningu sem orðið hefur. Ég tel að hún hjálpi mörgum og geti dregið úr fordómum. Auk þess sem við erum að fá fram þessa aðgerðaáætlun og fá meðal annars opinbera aðila, ýmsar stofnanir og aðila í samfélaginu með í verkefnið þá tel ég að fordómar minnki og þjónustan muni aukast. En við þurfum fjármagn inn í þetta til að geta fylgt þeirri áætlun sem fram kemur í þessari aðgerðaáætlun.

Hv. velferðarnefnd mun taka þessa mikilvægu þingsályktunartillögu til efnislegrar umræðu og afgreiðslu. Ég hlakka til þeirrar vinnu. Það er mikilvægt að málið hljóti góða afgreiðslu því að þetta varðar hagsmuni fjölda fólks.