145. löggjafarþing — 33. fundur,  12. nóv. 2015.

stefna og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára.

338. mál
[14:52]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að taka til máls um þingsályktunartillögu um stefnu- og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára.

Það er gott að leggja fram slíkar áætlanir og orð eru til alls fyrst. Það er gott að reyna að horfa yfir verkefnin sem fyrir liggja í nánustu framtíð í þessum málaflokki sem og svo mörgum öðrum. Auðvitað eru þetta mjög brýn mál sem um ræðir, um það held ég að við deilum ekki. Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur lagt áherslu á það við komandi fjárlagagerð að sálfræðingar standi til boða á heilsugæslustöðvum og heilbrigðisstofnunum um allt land þannig að fólk geti leitað í þá þjónustu fyrr í ferlinu en verið hefur. Ég hef helst áhyggjur af því að illa geti gengið að manna stöður en ég vona svo sannarlega að svo verði ekki og að við getum veitt íbúum landsins þjónustu hvar sem er, alla vega í allra stærstu byggðakjörnunum svo fólk þurfi ekki að fara um mjög langan veg til að sækja sér slíka þjónustu.

Hér er málinu skipt niður í nokkra kafla, A, B og C, og undirmarkmið og þess háttar. Áætlunin er til fjögurra ára og mér finnst nokkur bjartsýni vera ríkjandi þar. Ég tek undir það sem fram kom í andsvörum við ráðherra áðan, ég hef áhyggjur af því að fjármagnið reynist ekki nægjanlegt. En vissulega kemur fram í lokin að yfirfara beri áætlunina í tengslum við undirbúning fjárlaga ár hvert og gera ráð fyrir þeim kostnaði sem af henni kann að hljótast. Ég lít svo sem ekki á þessar tölur sem endanlegar, enda getur margt breyst á næstu árum.

Mér finnst margt áhugavert sem hér er sett fram, til dæmis sá starfshópur sem setja á á fót sem á að kanna hvort hægt verði að sinna einhverri fjarþjónustu sem nýst gæti fólki með geðraskanir í meðferð. Mér finnst það áhugavert vegna þess að það eru auðvitað breyttir tímar og þótt maður vilji gjarnan sitja með hinn aðilann fyrir framan sig í raunheimum í svona viðkvæmum málum, getur þetta verið lausn til dæmis fyrir þann sem á erfitt með að fara út úr húsi vegna geðröskunar sinnar eða getur hreinlega ekki komist til meðferðaraðila. Þess vegna væri gott ef hægt væri að leysa svona mál með fjarþjónustu. Mér finnst það áhugavert. Þessi starfshópur á reyndar ekki að skila af sér fyrr en í janúar 2018. Ég veit ekki alveg hvers vegna hann á að taka sér svona langan tíma. Það má vera að það sé í samræmi við annað í þessari þingsályktunartillögu. Ég er ekki búin að lesa hana í gegn, þ.e. ég er búin að hraðlesa en ekki fara nákvæmlega ofan í hana.

Setja á nokkra starfshópa á fót, meðal annars til að gera tillögur um geðræktarstarf í skólum. Einhvern veginn hélt ég að búið væri að gera slíkt, en það má vera að ekki sé lengur hægt að byggja á því. Það er ef til vill þar sem nauðsynlegast er að starfið komist á hreyfingu sem allra fyrst því að þar eru vandamálin oft hvað mest, þ.e. þegar kemur að börnum og ungu fólki með einhvers konar raskanir, sem þurfa mikla aðstoð. Það getur skipt miklu máli fyrir framtíð þeirra að gripið sé inn í mjög snemma. Tillögur starfshópsins eiga ekki að liggja fyrir fyrr en í lok árs 2017, þ.e. eftir rúm tvö ár. Mér finnst það of seint og mundi vilja sjá velferðarnefnd huga aðeins betur að því hvort hægt væri að flýta þeirri vinnu.

Það er eitt og annað hér sem hægt er að velta fyrir sér. Meðal annars eru verkefni sem verið hafa í gangi víða um land og hafa tekist vel, meðal annars á Suðurlandi. Þar má nefna ART-verkefnið sem kallar á áframhaldandi stuðning af hálfu ríkisins og væri áhugavert að sjá hvort það kemur þarna inn. Það er ekki tekið sérstaklega fram þegar talið er upp í heilbrigðisumdæmunum hvað gert hefur verið og hvaða úrræði hafa verið nýtt. Það er alla vega ekki tiltekið sérstaklega. En ég vona að þar sem þetta verkefni hefur gefið afskaplega góða raun, eins og margoft hefur komið fram, eins og fleiri sem nýtt hafa verið, sparar samfélaginu stórar fjárhæðir til lengri tíma og leiðir til þess að fólk á unglingsárum og jafnvel eldra verður síður utanveltu í samfélaginu, fólk sem annars hefði ekki getað tekið þátt í samfélaginu vegna þess að það fékk ekki viðhlítandi aðstoð eða úrræði fyrr á ævinni.

Við höfum töluvert rætt um stöðu geðheilbrigðismála fyrir Norðurland, meðal annars vegna þess að eini starfandi barna- og unglingageðlæknirinn hefur formlega hætt störfum, að minnsta kosti á Akureyri, en hann sinnti áður mjög stóru svæði. Nú hefur verið sett á laggirnar af hálfu ráðherra faglegt teymi í tengslum við barna- og unglingageðdeildina á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Það leysir tiltekinn vanda en alls ekki allan. Það þarf ekki endilega að fara í teymisvinnu. Það getur verið nauðsyn að komast til almenns barna- og unglingageðlæknis. Það er auðvitað líka áhyggjuefni að það eru enn þá mjög fáir að læra þá sérgrein í háskólanum. Við þurfum vissulega að reyna að hvetja til þess að fleiri taki það að sér því að það er mikil þörf. Hér kemur einmitt fram að 120 börn bíða eftir þjónustu á barna- og unglingageðdeild en það er bara brot af þeim börnum sem bíða. Fram kom um daginn að í kringum 1000 fjölskyldur á hinum ýmsu stöðum í samfélaginu bíða eftir einhvers konar aðstoð vegna geðrænna vandamála.

Hér er líka rætt um það sem ég spurði hæstv. ráðherra út í áðan, þ.e. þá skimun sem lagt er til að fari fram í 9. bekk um land allt. Er meðal annars vitnað til reynslunnar í Breiðholti, þar hefur verið reynt að bæta alvarlega stöðu og hefur það gengið mjög vel. Það er reyndar borgin sem sér að mestu um geðteymið sem ég talaði um áðan og ég held að þegar við sjáum fram á fækkun innlagna upp á 200 manns á ári, eða 25–28%, hljóti það að hafa áhrif og eitthvað sem við viljum leggja áherslu á. Slík úrræði kosta samfélagið minna og dregur úr vanlíðan þeirra sem í hlut eiga.

Virðulegi forseti. Tíminn er fljótur að líða, eins og gjarnan er þegar stór mál eru rædd. Hér er margt undir. Verið er að tala um viðhorf gagnvart einstaklingum sem eiga við geðrænan vanda að stríða. Hér er lagt til bæði gagnvart fjölmiðlum og vinnuveitendum og öðrum að fólk hugsi út fyrir kassann og setji til hliðar fordóma sem oft hafa verið uppi. Þegar fjallað er um ofbeldismál í fjölmiðlum er gjarnan talað um einhverjar raskanir eða geðræn vandamál sem sett eru í sama kassa, sem er auðvitað ekki rétt að gera. Varðandi lið C.5, þar sem hvatt er til þess að ríki og sveitarfélög ráði fólk sem lent hefur utan vinnumarkaðar vegna langvinnra geðraskana vona ég svo sannarlega að atvinnurekendur taki við sér og ég hvet þá til þess að gefa því fólki tækifæri. Við þurfum að opna á það í gegnum allt kerfið að öryrkjar, fólk sem orðið hefur öryrkjar vegna geðrænna vanda gefist tækifæri til að komast í hlutastörf með stuðningi frá ríkinu eða sveitarfélögunum hjá hinum almenna atvinnurekanda og fái tækifæri til að tengjast aftur út í samfélagið þannig að fólki líði eins og það sé að gera gagn. Ég hvet því ekki bara ríki og sveitarfélög heldur líka almenn fyrirtæki til að taka fólk í vinnu sem átt hefur við þennan vanda að etja.