145. löggjafarþing — 33. fundur,  12. nóv. 2015.

stefna og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára.

338. mál
[15:10]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil líkt og aðrir sem hér hafa tekið til máls í dag fagna því að þessi tillaga til þingsályktunar um stefnu- og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára sé komin fram. Mér finnst sérlega jákvætt að með tillögunni, þar sem fram kemur að meginmarkmið geðheilbrigðisstefnunnar sé aukin vellíðan og betri geðheilsa landsmanna og virkari samfélagsþátttaka einstaklinga sem glíma við geðraskanir til lengri eða skemmri eða lengri tíma óháð búsetu þeirra, fylgir kostnaðarmat eða kostnaðaráætlun. Það segir hreinlega í tillögutextanum, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að unnið verði samkvæmt eftirfarandi stefnu og aðgerðaáætlun til fjögurra ára í geðheilbrigðismálum og að gert verði ráð fyrir framkvæmd hennar við gerð fjárlaga.“

Mér finnst þetta gríðarlega jákvætt og mikill kostur að gert sé ráð fyrir því að þetta muni kosta peninga í framkvæmd, en svo verður tíminn að leiða í ljós hvort þetta séu nægilegir fjármunir sem hér er verið að setja í málin. Mér finnst það alla vega góð og jákvæð byrjun að verkefninu fylgi tæpar 563 millj. kr.

Það eru nokkur atriði í þessu sem mig langar að draga út og gera að umræðuefni af því sem ég tel alveg sérstaklega jákvæð. Það ber þá fyrst að nefna liðinn A.3 sem fjallar um það að þjónusta sálfræðinga standi til boða á heilsugæslustöðvum og heilbrigðisstofnunum sem sinna heilsugæslu. Það held ég að sé gríðarlega mikilvægt og mikið jöfnunartæki því kostnaður við það að fara til sjálfstætt starfandi sálfræðinga er mjög mikill og er sennilega ofviða mörgu fólki sem þarf svo sannarlega á sálfræðiþjónustu að halda. Ég held að það að færa sálfræðiþjónustuna út í nærumhverfið á fyrstu viðkomustaðina muni einnig gagnast öllum líkt og er tekið fram í greinargerð.

Annað sem ég er sérstaklega ánægð með er markmiðið sem sett er fram í A.6 sem fjallar um að þjónusta á göngudeild BUGL verði efld. Markmiðið er að stytta biðlista þannig að börn þurfi ekki að bíða lengi eftir þjónustu. Eins og hér hefur verið rætt þá er biðtíminn núna allt of langur, meðalbiðtími er níu mánuðir en getur verið allt að 18 mánuðir. Það er gríðarlega mikilvægt að börnum og ungmennum sé sinnt þannig að þau komist að sem allra fyrst.

Svo langar mig líka að nefna að í A.8 er talað um að byggð verði upp þekking á hjúkrunarheimilum til að veita öldruðu fólki þjónustu ef það á við geðræna erfiðleika að etja. Ég held að þetta sé mál sem þjóðin sé að vakna til vitundar um, um að eldra fólk geti einnig átt við geðræna erfiðleika að stríða. Í samfélagi þar sem meðalaldur fólks fer hækkandi og öldruðu fólki fjölgar er náttúrlega gríðarlega mikilvægt að á þessu sé tekið og þetta sé partur af geðheilbrigðisstefnunni.

Svo langar mig að eyða megninu af tíma mínum í að ræða aðgerðir í C-hluta áætlunarinnar sem ber yfirskriftina Fordómar og mismunun. Undirmarkmiðið sem þar er sett, undirmarkmið 3, er að fólki verði ekki mismunað á grundvelli geðheilsu. Í skýrslu sem heitir Fatlað fólk og öryrkjar sem íbúar sveitarfélaga og kom út árið 2013 var gerð könnun á viðhorfi almennings til fatlaðs fólks. Þar kemur fram að svarendur, sem er sem sagt almenningur, eru ósáttir við að fólk með þroskahömlun eða geðsjúkdóm sitji á Alþingi fyrir þeirra kjördæmi, sinni umönnun barna, afgreiði í verslunum eða starfi með þeim að félagsmálum. Fólk er almennt ósáttara við að fólk með þroskahömlun eða geðsjúkdóma sinni slíkum verkefnum en eru hins vegar jákvæðara gagnvart því að hreyfihamlað fólk, heyrnarlaust eða blint fólk sinni þeim. Að auki kom meira að segja í ljós að svarendur voru ósáttari við það að karlmaður með geðsjúkdóm starfaði að umönnun barna en kona með geðsjúkdóm. Mér finnst gríðarlega mikilvægt að hafa þetta atriði í huga þegar við tölum um fordóma og mismunun og ég held að því miður sé hér mikið verk að vinna til að útrýma fordómum svo fólki sé ekki mismunað á grundvelli geðheilsu.

Af því að þetta atriði tengist vinnumálum þá langar mig til að hoppa næst yfir í lið C.3 þar sem fjallað er um að ríki og sveitarfélög ráði fólk sem hefur lent utan vinnumarkaðar til starfa í stofnunum sínum. Þar segir að markmiðið sé að draga úr fordómum og mismunun. Framkvæmdin er, með leyfi forseta:

„Sett verði á fót tilraunaverkefni á ákveðnum opinberum vinnustöðum þar sem hlutastörfum verður fjölgað til að gera þau aðgengilegri fyrir fólk sem hefur verið án vinnu vegna geðraskana.“

Mig langar að vísa í skýrslu sem heitir Fordómar og félagsleg útskúfun og er frá árinu 2014 en þar er gerð samantekt á stöðu fatlaðs fólks eins og hún birtist í íslenskum rannsóknum frá árunum 2000–2013. Þar segir, með leyfi forseta:

„Fatlað fólk óttast að fá ekki starf á almennum vinnumarkaði og festast í aðgreinandi úrræðum eða einhæfum störfum.“

Þar segir jafnframt:

„Fatlað fólk vill fremur vinna á almennum vinnumarkaði en í aðgreindum úrræðum, svo sem vernduðum vinnustöðum.“

Mér finnst mjög mikilvægt að þessu sé veitt athygli því það er svo mikilvægt að gefa atvinnumálum mikinn gaum því þátttaka á vinnumarkaði er mikilvægur partur af lífi fullorðinna einstaklinga og stór liður í því að vera virkur þátttakandi í samfélaginu. Þar gildir auðvitað það sama um fólk sem glímir við geðræna erfiðleika og alla aðra. Það er ýmislegt í þessu sem þarf að hafa í huga. Um leið og verið er að beina því til ríkis og sveitarfélaga að ráða fatlað fólk til starfa og í því tilfelli sem við ræðum sérstaklega um hérna, fólk með langvinnar geðraskanir, verður að muna og hafa þessa þætti í huga.

Mér finnst líka mjög jákvætt sem kemur fram í lið C.2 um að setja eigi fram leiðbeiningar fyrir fjölmiðla um það hvernig unnt sé að fjalla um geðheilbrigðismál án þess að ala á fordómum. Við höfum náttúrlega nýlegt dæmi um það úr fjölmiðlum þar sem efnistökin hefðu að mínu mati verið öðruvísi ef einhverjar leiðbeiningar hefðu legið fyrir eða starfsfólk fjölmiðlanna hefði haft betri upplýsingar og verið betur frætt um það hvernig best væri að fjalla um málefni fólks með geðræna erfiðleika án þess að ala á fordómum um leið.

Nú þegar tíminn er að renna frá mér þá langar mig að nefna lið C.4, um að fram eigi að fara reglubundin heilsufarsskoðun á hælisleitendum. Þá er gríðarlega mikilvægt að slík skoðun verði gerð í þeim tilgangi að aðstoða fólk en ekki notuð til að vísa fólki frá, sem sagt notuð í neikvæðum tilgangi. Það er ekki það sem er hægt að lesa út úr þessu en mér finnst mikilvægt að nefna að það má ekki vinna með það þannig. (Forseti hringir.)

Tími minn er búinn. Ég er sem sagt frekar jákvæð gagnvart þessu máli og hlakka til að sjá það þegar það kemur aftur til okkar til síðari umr.