145. löggjafarþing — 33. fundur,  12. nóv. 2015.

stefna og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára.

338. mál
[15:21]
Horfa

Haraldur Einarsson (F):

Hæstv. forseti. Eins og aðrir sem hafa tekið til máls í þessari umræðu held ég að hér sé um góða tillögu að ræða og ég held að ég geti tekið undir með öllum þeim hv. ræðumönnum sem hafa talað á undan mér.

Verið er að ræða aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum fyrir fjölskyldur og geðrækt, forvarnir og er sjónum sérstaklega beint að börnum og ungmennum. Þetta má reyna að leysa eða bæta með ýmsum leiðum, með geðheilsuteymi, þjónustu sálfræðinga, þjónustu á göngudeild BUGL o.s.frv.

En ég ætla ekki að tala mikið um efni þessa frumvarps af því að mér finnst vanta gríðarlega stóran þátt inn í það. Ég ætlaði að vera vonsvikinn yfir því en ég held að það sé ekki hægt eftir að hafa lesið fylgiskjölin með frumvarpinu þar sem maður sér að gríðarlega margir umsagnaraðilar og þátttakendur, stofnanir og aðrir sem þetta mál varða, hafa komið að því. Líklega er það ekki almenn vitneskja hvað mataræði getur haft góð og mikil áhrif á geðheilbrigði fólks og þá sérstaklega barna. Ég held að það sé ekki almenn vitneskja en núna nýlega, á síðustu fimm til sjö árum, hafa verið gerðar rannsóknir í bæði Bretlandi og Ameríku sem sýna að mikið af þeim sjúkdómum og vandamálum sem við glímum við er hægt að draga úr, ég segi kannski ekki alveg fullleysa en í sumum tilvikum draga úr með góðu mataræði.

Ég hef sjálfur lesið bók eftir breskan höfund sem heitir Natasha Campell-McBride. Bókin var þýdd á íslensku árið 2008 og heitir Meltingarvegurinn og geðheilsa. Hún fjallar um náttúrulega meðferð við einhverfu, þunglyndi, ofvirkni, geðklofa, lesblindu, athyglisbresti og verkstoli. Bókinni er einnig ætlað að hjálpa börnum og fullorðnum að forðast eyrnabólgu, astma, ofnæmi og exem. Allt þetta tengir höfundur við betra mataræði og vitnar í margar rannsóknir sér til stuðnings. Þetta er mjög ítarleg bók og fræðileg, svolítið torlesin en mjög gagnleg. Ástæðan fyrir bókinni er sú að höfundurinn á sjálf einhverft barn og nær gríðarlega góðum árangri með náttúrulegu mataræði en bókin byggir líka á rannsóknum á meðferð skjólstæðinga hennar.

Ég las við undirbúning minn að þessari þingsályktunartillögu að hvað varðar ADHD, sem er athyglisbrestur með ofvirkni, er hægt að draga úr eða nánast lækna 63% þeirra sem greinast með ADHD með breyttu mataræði. Ég tel að hægt sé að fullyrða að þetta sé gríðarlega hátt hlutfall. Mér hefur fundist talsvert mikið um að leysa eigi vandamál með lyfjum, sérstaklega í þessum málaflokki. Ég hef í huga mínum gagnrýnt, og ekki farið með það neitt út á við fyrr en hér og nú, að fræðasamfélagið og læknasamfélagið hafi ekki nægilega þekkingu á næringu og á þeim áhrifum sem næring getur haft á líkamann. Því til stuðnings vil ég segja að sú sem þýddi fyrrnefnda bók á íslensku og skrifaði lokaritgerð um áhrif mataræðis á börn með ADHD segir, með leyfi forseta:

„Ég vona að smám saman verði meiri vakning innan heilbrigðiskerfisins um hvað rétt mataræði hefur mikið að segja fyrir fólk með einhverfu, ofvirkni, athyglisbrest, þunglyndi og geðklofa.“

Þá vil ég einnig fjalla um skaðleg efni sem eru í matvælum en fyrir 1997 voru svokölluð E-efni eða litarefni bönnuð í matvælum. Nú þekki ég það ekki hvort tengsl geti verið á milli aukinna geðrænna vandamála og þessi að þau efni hafi verið leyfð að nýju.

Mig langar að fjalla um tvennt úr bókinni í restinni af ræðu minni. Annað varðar tvær gerðir af próteini sem heita glúten og casein. Þau brotna niður í tveimur stigum í meltingarveginum og leggur höfundurinn áherslu á að hægt sé að hvíla meltinguna, en glúten og casein finnst í kornvörum, hveiti og mjólk, og tekur höfundur m.a. dæmi um ástæður þess að fólk geti verið með mjólkuróþol. Ef meltingarvegurinn er orðinn mjög óheilbrigður geta þessi tvö prótein haft sömu áhrif á heilastarfsemina og ópíum hefur. Ég veit að þetta eru stór orð en þetta er það sem hún hefur komist að í rannsóknum sínum.

Svo vil ég koma að öðru sem snýr að mataræði okkar Íslendinga en það er nýtt að maður verði að sleppa fitu og fita sé slæm í mataræði. Campell-McBride færir mörg rök fyrir því að kólesteról sé það versta og segir að 70% af öllu kólesteróli í blóði sé framleitt í lifrinni úr einföldum kolvetnum. Ég les út úr því að verið sé að styðja það að egg séu ekki óholl, eins og áður var talið. Kólesteról í eggjum hefur ekki bein áhrif á kólesteról í blóði en hins vegar hækka einföld kolvetni, sem eru t.d. í gosdrykkjum, sætindum og í sykri almennt, sem er því miður orðinn allt of stór hluti af fæðu okkar, kólesteról í blóði og valda þar af leiðandi miklu fleiri sjúkdómum en við erum að fjalla um hér og tengjast geðheilsu, en þetta tengist allt.

Ég vildi koma inn á þennan mikilvæga þátt og vona að hv. velferðarnefnd, þar sem hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir er formaður, taki athugasemdir mínar til greina og fjalli um þær og skoði hvernig megi bæta mataræði inn í þessa ályktun. Að öðru leyti vil ég fagna þessu.