145. löggjafarþing — 33. fundur,  12. nóv. 2015.

fullnusta refsinga.

332. mál
[15:59]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég verð að vera pínulítið neikvæð því að við fyrstu sýn lítur ekki út fyrir að frumvarpið sé byggt á mjög djúpri stefnumótunarvinnu um framtíð þessa kerfis og framtíðarsýn varðandi betrun. Ég hef lesið umsögnina frá Afstöðu, félagi fanga, um frumvarpið, en hún er frá því það var á kynningarstigi í ráðuneytinu. Þar segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Frumvarpið er að mestu byggt á núgildandi lögum sem skortir alla stefnumótun í samræmi við þau ríki sem Ísland ber sig að jafnaði við, sem hafa tekið upp betrunarstefnu í fangelsismálum. Danskar rannsóknir hafa sýnt að betrunarvist skilar miklum samfélagslegum ávinningi, ekki bara fyrir fangana sjálfa heldur fyrir þjóðina alla. Skoðanakannanir í Noregi sýna að almenningur telur að fangelsisvist eigi að vera úrræði til betrunar, fremur en hefnd samfélagsins. Þá hefur danski dómsmálaráðherrann sagt að markmiðið með dómum sé að fækka brotaþolum og það sé að gerast með betrunarstefnunni. Ekki er að sjá slíka nálgun í þeim drögum að frumvarpi um fullnustu refsinga sem nú liggur fyrir.“

Því langar mig að spyrja hvort tekið hafi verið tillit til þessara athugasemda frá Afstöðu. Ég óska jafnframt eftir því að ráðherra fari aðeins yfir það hvaða stefnumótunarvinna fór fram áður en frumvarpið var lagt fram. Mig langar að spyrja hvort það sé rétt sem Afstaða, félag fanga, heldur fram að frumvarp þetta sé að mestu byggt á gildandi lögum um fullnustu refsinga og að engin alvörustefnumótun til framtíðar hafi farið fram um þennan málaflokk. Þetta er fullkominn málaflokkur fyrir stefnumótunarferli eins og útlendingalögin hafa verið í og það er miður að þetta skuli ekki hafa farið í sambærilegt ferli.