145. löggjafarþing — 33. fundur,  12. nóv. 2015.

fullnusta refsinga.

332. mál
[16:05]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil líka geta þess, eins og ég kom stuttlega inn á í ræðunni, að í ráðuneytinu er verið að vinna að fullnustuáætlun þar sem birtist langtímastefnumörkun í málaflokknum í heild sinni, það sem ég vísaði til í mínu fyrra andsvari. Ég held að í þeirri stefnumörkun sjáum við betur hvernig menn líta lengra fram í tímann. Ég á von á því að styttast fari í það að hún birtist. Hún er hluti af stærri áætlunargerð þegar kemur að öllum löggæslumálum, ákærumálum og slíkum þáttum. Það er séráætlun sem varðar fullnustu.

Í frumvarpinu eru einnig tækifæri og möguleikar fyrir fangelsisyfirvöld að setja menn í meðferðarúrræði eða meta stöðu manna þegar þeir fara inn í fullnustu til þess einmitt að geta ýtt mönnum í ákveðnar áttir. Það er auðvitað liður í því að ýta undir betrun í fangelsum.