145. löggjafarþing — 33. fundur,  12. nóv. 2015.

fullnusta refsinga.

332. mál
[16:08]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek svo sannarlega undir það með hv. þingmanni að það ætti að vera meginverkefni okkar að draga úr endurkomutíðni í fangelsi. Það hlýtur að vera markmiðið sem við stefnum að og við þurfum að finna þær leiðir sem bestar eru til að tryggja að fólk komist af þeirri braut og við lendum ekki í því að fólk brjóti ítrekað af sér.

Varðandi atriðið sem hv. þingmaður spyr að. Þegar maður fer að sökkva sér ofan í þessa málaflokka og í tengslum við þetta tiltekna frumvarp fannst mér ástæða til að biðja refsiréttarnefnd um að skoða samfélagsþjónustu sem refsingarúrræði í lögum, þ.e. að það yrði sett sem eitt af úrræðunum í hegningarlögunum. Hegningarlögum yrði breytt á þann veg að til viðbótar við fangelsisvist væri hægt að dæma fólk til samfélagsþjónustu, að skoða slíka þætti, bæta þar með við einu úrræði til viðbótar. Það nálgast dálítið þá hugsun í því frumvarpi sem þingmaðurinn nefnir, og ég verð að viðurkenna að ég hef ekki kynnt mér í þaula, en rímar við þá hugsun að dómari hafi tækifæri þegar hann er að dæma fólk til fangelsisvistar, og í erindi mínu til refsiréttarnefndar gat ég ekkert sérstaklega um að líta þyrfti til tiltekins aldurs heldur eingöngu til þessa úrræðis, hvort nú sé kominn tími til að endurskoða hegningarlögin að þessu leyti og gefa dómurum tækifæri í hvaða tilviki sem það væri til að dæma menn til annars konar refsingar en þeirra sem hafa staðið í okkar ágætu hegningarlögum frá 1940.

Ég held að þarna sé um mikilvægt mál að tefla. Það er aldrei að vita nema refsiréttarnefnd komist í athugun sinni að fleiri atriðum sem vert er að skoða. Þá munum við að sjálfsögðu taka það til athugunar í framhaldi.