145. löggjafarþing — 33. fundur,  12. nóv. 2015.

fullnusta refsinga.

332. mál
[16:10]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fagna þeim orðum ráðherrans að þetta sé til skoðunar hjá hv. nefnd. Það hefur auðvitað áður verið rætt í nefndum á vegum dómsmálaráðuneytisins og síðar innanríkisráðuneytisins, en því miður ekki orðið að tillögum inn í þingið. Ég held að full ástæða sé til þess að skoða þetta sem úrræði fyrir dómara fyrir alla aldurshópa en ég tel að það sé ekkert að vanbúnaði að taka þetta skref strax hvað varðar afbrot fólks á aldrinum 15–21, vegna þess að staðreyndin er sú að dómari sem fær ungan afbrotamann fyrir sig á í dag engan kost annan en að dæma viðkomandi á skilorð. Það þýðir að það er engin íhlutun í málefni ungmennisins. Það fær enga örvun til þess að breyta hátterni sínu, endurskoða það á hvaða braut það er, horfa í aðrar áttir, sem samfélagsþjónusta gæti þó augljóslega stuðlað að, sannarlega verið betrunarúrræði og fengið fólk eftir sitt fyrsta brot á unga aldri til þess að (Forseti hringir.) a.m.k. að hugsa ráð sitt en ekki að eina úrræðið eftir skilorð sé að setja fólk í fangelsi.