145. löggjafarþing — 33. fundur,  12. nóv. 2015.

fullnusta refsinga.

332. mál
[16:15]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það liggur fyrir að þegar litið er til allra Norðurlandanna er staða okkar veikburða þegar kemur að innheimtu sekta. Noregur er áberandi hæstur í innheimtuhlutfalli. Við höfðum að sjálfsögðu hliðsjón af löggjöf Norðurlandanna eins og gjarnan er þegar við fórum yfir málasviðið. Það var til umræðu við vinnslu þessa frumvarps að fara leið Norðmanna að fullu og vera með launaafdrátt. Það skýrir auðvitað þann mikla árangur hjá þeim að það sé gert þannig þar.

Það var hins vegar niðurstaðan að á þessu stigi væri þetta það viðurhlutamikil breyting að hleypa kerfinu inn í laun manna, ef svo má segja, að mér þótti ekki hægt á þessu stigi að ganga svo langt. Það er gert í tengslum við meðlag. Þetta er mjög vandmeðfarið úrræði og mér finnst að skoða þurfi að það mjög heildstætt hvenær þetta á að gerast og hvenær ekki, en þetta er sannarlega úrræði sem er fyrir hendi. Það er sjálfsagt að menn velti því fyrir sér. Það getur verið að nefndin vilji gera það, en niðurstaða mín var sú að á þessu stigi væri það býsna langt gengið, að minnsta kosti að sinni. Það er aldrei að vita hvað menn gera til lengri tíma, en við verðum hins vegar að horfast í augu við að hin slælega niðurstaða í innheimtu sekta er ekki til fyrirmyndar og setur líka mikinn þrýsting á vararefsingu þar sem vandinn er ærinn fyrir með þann mikla fjölda sem bíður afplánunar. En það verður samt að horfa á prinsippið en ekki vararefsinguna, menn eiga þá bara að laga hana. Menn verða að horfa á prinsippið um það hvort rétt er að fara inn í laun manna. Það er bara mat og það var metið svo á þessu stigi að gera það ekki.