145. löggjafarþing — 33. fundur,  12. nóv. 2015.

fullnusta refsinga.

332. mál
[16:19]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það fyrsta og síðasta sem ég vil segja um þetta frumvarp er að það nálgast viðfangsefnið ekki að mínu mati frá réttu sjónarhorni. Ég á eftir að fara í ítarlegri greiningu á frumvarpinu, enda er þetta viðamikið frumvarp, 101 grein á 71 blaðsíðu, ef maður telur greinargerðina með. En ég verð að segja að ég sé ekki þarna áherslu á betrun. Hugtakið betrun kemur þrisvar sinnum fyrir í þessu ítarlega frumvarpi, í öllum tilvikum í skýringum þess en aldrei í frumvarpstextanum sjálfum.

Þó fagna ég því sem hæstv. innanríkisráðherra sagði hér fyrr í dag, að þetta væri enginn lokapunktur heldur stæði enn þá yfir vinna við mótun á heildarsýn, sem ég tel gott og reyndar nauðsynlegt vegna þess að þetta dugir ekki til.

Höfum eitt alveg á hreinu varðandi betrunina. Engin betrunarstefna mun vera raunhæf í þessum málaflokki á meðan hann er fjársveltur umfram þolmörk. Í fyrra þurfti 170 sinnum að sleppa úrræðum eins og vinnu eða afþreyingu fanga á Litla-Hrauni vegna þess að það þurfti að manna stöðu fangavarða með öðru starfsfólki. Það er fyrsta viðfangsefnið. Algerlega burt séð frá allri stefnumótun er ekki hægt að tala um betrun á meðan ástandið er svona. Og nú á enn að skera niður, aðhaldskrafan heldur áfram. Ég veit að það er ekki á könnu hæstv. ráðherra heldur er það verkefni okkar á Alþingi og við verðum að auka fjárútlát í þennan málaflokk, sér í lagi til Litla-Hrauns og Sogns.

Í einhverjum tilvikum lítur út fyrir að beinlínis sé um að ræða afturför í frumvarpinu hvað varðar betrun. Sem dæmi get ég nefnt að í gildandi lögum er ákvæði um meðferðaráætlun fyrir fanga þar sem skylt er að vinna með meðferðar- og vinnuvistunaráætlun. Það sem kemur í staðinn í frumvarpinu er ákvæði í 24. gr. sem er miklu skemmra og hvergi nálægt því að vera jafn ítarlegt og það sem er í gildandi lögum. Þar er það skilyrt við að talið sé nauðsynlegt að mati sérfræðinga Fangelsismálastofnunar. Útskýringin á þessu er afskaplega áhugaverð og í raun segir hún að mínu mati mikið um vandamálið sjálft, hvernig við nálgumst það mál. Í greinargerð stendur, með leyfi forseta:

„Þess ber einnig að geta hér að lagt er til að dregið verði úr kröfum til Fangelsismálastofnunar um að gera meðferðaráætlanir. Samkvæmt gildandi rétti er skylt að gera meðferðaráætlun fyrir hvern fanga. Það hefur hins vegar ekki gengið eftir vegna forgangsröðunar þar sem Fangelsismálastofnun hefur ekki fengið fjármagn til að sinna verkefninu. Ákvæðið um gerð meðferðaráætlana í gildandi lögum var með öðrum orðum ekki kostnaðarmetið þegar það var samþykkt. Ekki hefur fengist fjármagn til að sinna þessu að fullu. Miðað við niðurskurðarkröfur síðustu ára og fyrirliggjandi niðurskurðarkröfur er ekki líklegt að fjármagn fáist í verkefnið. Því er lagt til að gerð sé meðferðaráætlun fyrir fanga sé það talið nauðsynlegt að mati sérfræðinga Fangelsismálastofnunar.“

Þarna nákvæmlega stendur hnífurinn í kúnni. Við erum farin að breyta stefnunni til samræmis við fjársvelti málaflokksins, sem mér þykir mjög alvarlegt. Á móti kemur að það er ágætt að það sé bara sagt berum orðum í greinargerð frumvarpsins. Það er mjög nauðsynlegt og undirstrikar vandamálið.

Í sérstakri umræðu á þinginu ekki fyrir löngu virtist vera alger samhljómur um að fangelsisrefsing eigi að vera til betrunar. Ef við á Alþingi erum sammála um það verðum við líka að viðurkenna að það kostar peninga. Við sem förum með fjárveitingavaldið þurfum að setja fjármagn í það. Það er ekki valkvætt. Við getum ekki þóst ætla að vera hér með betrunarstefnu á meðan við fjársveltum málaflokkinn. Það er bein mótsögn í því, þannig að við verðum að auka fjárútlát. Það er það fyrsta sem við þurfum að gera áður en við breytum nokkru öðru, að mínu mati. Núna er staðan á Litla-Hrauni þannig að húsnæði er ekki fokhelt eða vatnshelt. Ég gæti haldið allt of langa ræðu um hvernig ástandið er á Litla-Hrauni en ég hef hreinlega ekki tíma til að fara yfir það. Það er svo ægilega margt sem er að. Flest ef ekki öll þessi vandamál eru til komin út af fjárskorti. Við gætum vel farið í ýmsar mjög góðar stefnubreytingar, auðvitað, en fjársvelti einkennir allt sem er verulega athugavert við starfsemi Litla-Hrauns eins og er.

Hér eru margir hlutir og ég þarf að fara sparlega með tímann og velja úr.

Þegar kemur að betrun er mikilvægt að þar sé atvinna í boði. Margir telja, og ég er í meginatriðum sammála því, að atvinna í fangelsum sé ein veigamesta aðferðin til betrunar. Þá langar mig að minnast á annað sem ég tel einnig skipta miklu máli fyrir betrun fanga, það er aðstaða til vinnu í fangelsum. Því hefur verið haldið fram að fangelsið sem fyrirhugað er að byggja á Hólmsheiði geri ekki nægilega vel ráð fyrir vinnuaðstöðu fyrir fanga. Annar þáttur sem okkur hefur verið bent á, og það er stefnuatriði, er að atvinnustarfsemi í fangelsum hafi valdið vandræðum vegna samkeppnissjónarmiða. Við því þarf einhvern veginn að bregðast vegna þess eins og ég sagði áðan er vinna fyrir fanga mikilvægasta betrunarþjónustan sem við getum veitt.

Því varpa ég fram þeirri hugmynd að fangelsi með atvinnustarfsemi verði skilgreind sem verndaðir vinnustaðir og njóti þannig svipaðra réttinda og atvinnustarfsemi fyrir fatlað fólk sem nýtur sérstakrar verndar. Sem dæmi um það get ég nefnt bónstöðina á Litla-Hrauni en þar er hægt að láta þrífa bílinn sinn og bóna. Það er hins vegar verulegum vandkvæðum bundið að auglýsa þá starfsemi vegna fyrirtækja í þessum geira í nágrenni fangelsisins. Úr því þarf nauðsynlega að bæta, Litla-Hraun getur ekki auglýst starfsemi sína eins og er. Þar af leiðandi er erfitt að viðhalda vinnuúrræðum. Fyrir utan það að ekki tekst að manna vinnuúrræðin með viðunandi hætti eða fjármagna málaflokkinn yfirhöfuð.

Hér er annað sem stingur mjög í augu og er mjög sambærilegt við vandann sem ég nefndi áðan. Meðal nýmæla í kafla um réttindi og skyldur fanga eru til dæmis breytingar á ákvæðum laganna um heimsóknir. Markmiðin þar eru, með leyfi forseta: „að styrkja baráttu fangelsisyfirvalda gegn smygli á fíkniefnum og lyfjum sem og baráttunni gegn vændi og annarri misnotkun.“

Hér þurfum við í fyrsta lagi að hafa í huga að samneyti fanga við fjölskyldu og vini er einn allra sterkasti þátturinn í betruninni og það er mjög varasamt að gera þar breytingar á til hins verra. Það sem þarf að gerast til að berjast gegn vímuefnaneyslu á Litla-Hrauni í það minnsta er að fjármagna starfsemina í samræmi við þörf þannig að viðvarandi skortur á fangavörðum auðveldi ekki vímuefnasmygl eins og raun ber vitni. Viðvarandi niðurskurðarkrafa á Litla-Hrauni hefur beinlínis leitt af sér aukna vímuefnanotkun. Þá er húsnæðið svo illa búið að það er leikur einn að fela vímuefnin mjög víða, sér í lagi í húsnæði sem er hvorki fok- né vatnshelt. Að mínu mati jaðrar það við einhvers konar vitfirru þegar ástandið er eins og það er á Litla-Hrauni núna að menn ætli að fjármagna vímuefnaeftirlit með því að ganga á réttindi fanga og mikilvægan þátt í betrun þeirra en láta húsnæðið, starfsemina og alla möguleika á betrun grotna niður á meðan, í stað þess að fjármagna málaflokkinn eins og þörf er á. Við erum ekki að tala um neinar stjarnfræðilegar upphæðir, 50 millj. kr. mundu skipta sköpum. Það er ekki há tala í samhengi við fjárlög og sér í lagi við mikilvægi málaflokksins.

Búnaður. Önnur nýmæli í lögunum eru að búnaður, svo sem sjónvörp, tölvur, hljómflutningstæki sem fangar geta sótt um leyfi til að hafa í klefa sínum, verði eign fangelsisins og leigður til fanga gegn vægu gjaldi. Í greinargerð er þetta skýrt svona, með leyfi forseta:

„Ljóst er að fyrirkomulag þetta, sem þekkist víða erlendis, mun takmarka getu fanga til að misnota þessi tæki t.d. við að fela fíkniefni inni í þeim og komast heimildarlaust á netið.“

Með fullri virðingu held ég að tæki eins og sérstaklega tölvur geti stuðlað mjög að betrun og ég tel orðið tímabært að endurskoða reglur um aðgang fanga að internetinu. Það má setja aðgangsstýringar á þær með einhverjum hætti og jafnvel verulegum hætti. Hins vegar fer nánast öll þjóðfélagsumræða fram á internetinu og á meðan fangar hafa kosningarrétt þurfum við að fara varlega í að takmarka aðgang þeirra að upplýsingum, ekki síst nú á þessum tímum þar sem útkoma frjálsra og óháðra dagblaða á prenti er mjög af skornum skammti.

Eftir fyrstu yfirferð á þessu frumvarpi sýnist mér skorta mjög á markvissa stefnumótun til framtíðar og sýnist að hér sé aðallega verið að stoppa í göt. Það er miður því að við þurfum að taka okkur vel á í fangelsismálum og hugsa þau upp á nýtt. Því fagna ég því aftur að orð hæstv. innanríkisráðherra hafi verið á þá leið, ef ég skildi hana rétt fyrr í dag, enda er það mjög nauðsynlegt.

Það er ýmislegt sem ég býst fastlega við að hv. allsherjar- og menntamálanefnd taki til athugunar. Ný heildarlög eru náttúrulega mjög stórt mál. Eitt af því eru agaviðurlög í fangelsi, 73. gr. og 74. gr. Starfsmönnum fangelsis er heimilt að beita agaviðurlögum sem geta verið mjög íþyngjandi, svo sem svipting hluta þóknunar fyrir unnin störf, takmörkun heimsókna, flutningur úr opnu fangelsi í lokað, takmarkanir á útivist og hreyfingu, einangrun og fleira. Ég tel mikilvægt að fangi hafi möguleika á að fá óháða endurskoðun á þessum ákvörðunum til að það sé öruggt að agaviðurlögum sé ávallt beitt af sanngirni og að fullu og öllu leyti í samræmi við lög.

Hvað varðar flutning milli fangelsa er ekki nógu skýrar reglur um hann. Það þarf að huga að því á svipaðan hátt og með agaviðurlögin. Fangelsismálastofnun getur í dag flutt menn milli fangelsa án ástæðu og án tillits til búsetu manna, fjölskylduaðstæðna eða annarra aðstæðna. Til eru mörg dæmi um öryggisleysi sem það getur valdið föngum auk áhyggja aðstandenda. Þá getur flutningur fanga einnig haft alvarleg áhrif fyrir aðra fanga. Ég hef til að mynda heyrt dæmi, mjög ítarleg og alvarleg dæmi, um að flutningur erfiðra einstaklinga í rólegri fangelsi hafi valdið mikilli röskun á því sem þar var fyrir, hjá föngum sem gekk vel að taka á sínum málum, fíkniefnamálum og öðru slíku. Það fór svo sem ekki alveg út um þúfur á endanum en það varð veruleg röskun á því og var mjög alvarlegt. Það gerðist vegna þess að erfiður fangi var fluttur yfir í rólegt fangelsi.

Nú á ég tæpar fjórar mínútur eftir af ræðutíma mínum og er ágætt að eyða þeim í að nefna vistun geðsjúkra og geðheilbrigðisþjónustu innan fangelsis. Ég held að flestir landsmenn viti nú að vistun geðsjúkra í fangelsum er alvarlegt vandamál og við verðum að leysa það. Aftur kemur fjármagnið inn. Ég reikna ekki með því að frumvarpið taki á þeim vanda enda þarf fjárveitingavaldið að koma hér að. Þetta er samt málaflokkur þar sem vandamálin eru orðin svo djúpstæð að verulegra úrbóta er þörf. Fangaverðir eru á engan hátt í stakk búnir til að takast á við alvarlega geðsjúkt fólk sem ætti með réttu að vista á heilbrigðisstofnun en ekki í fangelsum, fyrir utan það að heilbrigðisþjónustan sjálf hefur líka verið í molum. Ég hef hitt fangaverði sem hafa beinlínis áhyggjur af því hvernig söguskýringar framtíðarinnar muni vera varðandi þá sjálfa miðað við það hversu vanbúin fangelsin eru til að takast á við fanga með geðræn vandamál. Á Litla-Hrauni eru fangar sem eiga við veruleg geðræn vandamál að stríða og er ekki mannúðlegt að vista þá í fangelsi þar sem er hvorki aðstaða né þekking til að takast á við téða geðsjúkdóma. Ég undirstrika sérstaklega að þessar áhyggjur koma ekki síst frá fangavörðum sjálfum. Fangaverðir sjálfir almenn telja ástandið ekki bjóðandi í kerfi sem á að heita mannúðlegt. Þeir hafa sjálfir áhyggjur af því hvernig við munum líta á störf þeirra í framtíðinni. Það er vegna þess að við fjármögnum ekki málaflokkinn. Við endum alltaf þar.

Síðast en ekki síst vil ég sérstaklega nefna eitt sem við í Pírötum höfum ítrekað vakið máls á og það er nokkuð sem við höfum ekki rætt nærri því nógu vel. Það er hvernig við ætlum að koma föngum aftur út í samfélagið að lokinni afplánun. Sá þáttur sérstaklega þarfnast ítarlegrar endurskoðunar og fangelsismálayfirvöld eiga eftir að þurfa að ræða við félagslega kerfið og sveitarfélögin því að það skiptir öllu máli fyrir samfélagið og varðandi það að fækka endurkomum í fangelsin að fólk geti átt farsæla endurkomu út í samfélagið. Ekki er nægilega vel hugað að því í dag, mönnum er eiginlega bara hent út úr fangelsi. Þar með lýkur öllu aðhaldi og þeir fara bara aftur út í það sem þeir þekkja. Margir fangar koma út og hafa ekkert til að hverfa að, hvorki húsaskjól né lífsviðurværi, og auðvitað er allur gangur á því hverjar félagslegar aðstæður eða fjölskyldutengsl eru fyrir hendi og þeir eru algerlega upp á sjálfa sig komnir. Það þarf engan sérfræðing til að sjá hvað gerist ef maður losnar úr fangelsi sem hefur lengi verið í félagsskap sem snýst í meginatriðum um vímuefnaneyslu og glæpastarfsemi, ef það verður öryggisnet manns þegar hann kemst loksins út úr fangelsi. Hvert heldur fólk að hann fari? Auðvitað í sama farið, að sjálfsögðu. Það er eflaust ein af meginástæðum þess að hér er endurkoma í fangelsum óviðunandi há. Það er sennilega einn erfiðasti þátturinn í þessu sambandi vegna þess að í sambland við þetta eru almenn húsnæðisvandamál á Íslandi svo erfitt er að forgangsraða, það er bara skortur á húsnæði og skortur á félagslegum úrræðum. En við getum ekki leyft okkur að henda manni út úr fangelsi og ætlast til að hann sé bættur maður, sér í lagi þegar hann hefur verið í fangelsi í fjársveltu umhverfi um árabil þar sem er skortur á menntun, skortur á vinnu, jafnvel þótt forstöðumenn fangelsisins vilji mjög vel og vilja allt fyrir mann gera. Það eru einfaldlega eru ekki til peningar. Það er þungamiðjan í umræðunni: það vantar peninga í málaflokkinn. Við verðum að bæta úr því.

Á síðustu sekúndunum ætla ég bara að nefna það og fullyrða að þótt nýtt fangelsi Hólmsheiði komi næsta vor, er manni sagt núna, mun það ekki leysa þessi vandamál. Það getur hjálpað eitthvað pínulítið til en það verður pínulítið. Það mun ekki uppræta vandann.